Viðurkenning á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 16:44:56 (8647)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

viðurkenning á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

663. mál
[16:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010.

Þetta er einföld breyting en við framkvæmd laganna hefur komið fram ákveðið óhagræði sem felst í því að reglugerðarheimild fyrir ráðherra í 2. mgr. 9. gr. laganna nýtist einungis fyrir mennta- og menningarmálaráðherra en ekki fyrir ráðherra sem fara með aðra málaflokka þar sem reynir á útgáfu leyfis eða löggildingar til ákveðinna starfa. Fram til þessa hefur verið leyst úr þessu á þann hátt að mennta- og menningarmálaráðherra hefur birt reglugerðir um starfsréttindi heilbrigðisstétta og iðnaðarmanna, en ég tel þó mun eðlilegra að útgáfa reglugerða á þessum sviðum sé hjá viðkomandi fagráðherrum í samræmi við skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, samanber forsetaúrskurð nr. 125/2011. Samkvæmt núgildandi skipan mundi þar vera um að ræða velferðarráðherra og iðnaðarráðherra.

Ég tel rétt að geta þess að við undirbúning frumvarpsins, sem er ein málsgrein, hefur verið haft samráð við velferðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.