Gjaldeyrismál

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 17:07:35 (8655)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[17:07]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi fyrra atriðið er að sjálfsögðu rétt að fá Seðlabankann til viðræðna um hvernig hann lítur sjálfur á að draga beri mörkin í sambandi við þessa upplýsingaöflun, en eins og mér hefur verið kynnt þetta er það að sjálfsögðu ekki þannig að Seðlabankinn ætli að fara að krefjast upplýsinga um mál af óskyldum toga eða um hvað sem er. Það eru viðbótarupplýsingar sem tengjast viðskiptum með gjaldeyrismál sem þetta snýst um, leyfi ég mér að fullyrða, það er þá verið að færa upplýsingaréttinn út fyrir þröngt skilgreind gjaldeyrisviðskiptin sjálf gagnvart upplýsingum sem tengjast þeim. Það liggur í hlutarins eðli.

Varðandi sektarákvæðin er það rökstutt þannig, og það held ég að séu fullgild rök, að það sé heppilegra að hafa stjórnvaldsrýmið innan rammans um stjórnvaldssektir þannig að þegar mjög háar fjárhæðir eiga í hlut sé hægt að ljúka slíkum málum eftir sem áður með stjórnvaldssektum en þurfa ekki að senda þau í ákæru o.s.frv. Að sjálfsögðu eru slík stjórnvaldssektarákvæði þannig úr garði gerð að þau taka mið af umfangi málsins sem í hlut á og þess vegna er ramminn oft býsna rúmur. Það þekki ég til dæmis úr stjórnvaldssektarákvæðum á sviði löggjafar um fiskveiðar eða annað slíkt. Þá er það að sjálfsögðu umfang viðskiptanna eða fjárhæðir sem í hlut eiga sem ráða því hver stjórnvaldssektin er. Hér er fært fram sem rök að vegna þess að í sumum tilvikum sé um svo háar fjárhæðir að ræða þurfi sektarramminn að vera rúmur, eigi menn að hafa svigrúm til að ljúka málum í gegnum þann farveg sem að sjálfsögðu er fljótvirkari og einfaldari en að senda mál í rannsókn o.s.frv. (Forseti hringir.) Menn eiga jú alltaf þann rétt að bera ágreining undir dómstóla, hann verður ekki frá þeim tekinn, þannig að þetta er tilraun til að leysa mál með þessum hætti og svo kemur í ljós hvort menn una henni.