Gjaldeyrismál

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 17:09:58 (8656)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[17:09]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, um rýmkun heimilda, aukið eftirlit, hækkun sekta o.fl.

Þannig er mál með vexti að í september sl. varð það að samkomulagi milli stjórnarandstöðu og stjórnarflokkanna að leitað yrði allra leiða til að tína alls konar smælki úr lögunum um gjaldeyrishöftin til að rýmka sem mest um fyrir hinum venjulega borgara þannig að hann yrði sem minnst var við þessi gjaldeyrishöft á sjálfum sér. Staðið hefur verið við það með þessu lagafrumvarpi og hér eru ýmis ákvæði sem rýmka þær heimildir sem fólk hefur verið sett undir og er ekkert nema gott um það að segja.

Það sem mér líkar illa við frumvarpið er að hér er enn og aftur verið að auka eftirlit, hækka sektir og slíkt. Og ég verð að segja að ef maður fylgist með framkvæmd gjaldeyrishaftanna, fylgist með vinnu Seðlabankans í því öllu saman, virðist aðaláherslan hjá Seðlabankanum vera sú að herða höftin, auka sektir, auka eftirlit, en það fer mun minna fyrir léttingu gjaldeyrishafta sem ætti auðvitað að vera æðsta markmið Seðlabankans, að losa Íslendinga undan þeim gjaldeyrishöftum sem við búum við núna og setja þurfti á, illu heilli, haustið 2008. Áherslan virðist öll vera á að halda þeim.

Mikið hefur verið talað um þá áætlun sem er í gangi um léttingu gjaldeyrishafta og sitt sýnist hverjum um það en mér sýnist að flestir geti samt fallist á að það gengur afar hægt að aflétta gjaldeyrishöftunum. Við höfum séð ummæli lærðra manna og kvenna sem vit hafa á að með þessu áframhaldi muni taka tugi ára að létta gjaldeyrishöftunum. Eins og áætlunin er byggð upp og eins og menn tala virðist eiga að létta þann þrýsting sem er út úr landinu, hinn meinta þrýsting ætti ég öllu heldur að segja, með því að halda sem mestum afgangi af viðskiptum við útlönd þannig að náist að kroppa upp í þá upphæð sem nú er sögð standa í þúsund milljörðum eða svo sem bíða eftir því að flæða héðan úr landi.

Í fyrsta lagi er hægt að gera miklar athugasemdir við þær fullyrðingar að þúsund milljarðar muni hverfa úr landi um leið og tækifæri gefst, um leið og höftum er aflétt. Bæði er að það eru tímatakmörk, þetta eru afborganir af skuldabréfum sem ná yfir nokkur ár, þetta er sala á hlutabréfum í bönkunum o.s.frv. Ég leyfi mér því að efast um að þessi mikli meinti þrýstingur á krónuna út úr landinu sé jafnmikill og af er látið.

Í öðru lagi er sú hugmyndafræði að það eigi fyrst og fremst að losa þann þrýsting sem þó er á krónuna, sem menn greinir á um, með viðskiptaafgangi þannig að þeir peningar sem við öflum á næstu árum muni allir fara í að fjármagna þetta útstreymi. Ég leyfi mér að setja stórt spurningarmerki við þá ráðstöfun vegna þess að ljóst er að gengi íslensku krónunnar er mjög veikt núna sem gerir það að verkum að innflutningur er dýr og útflutningur reyndar líka sem leiðir til þess að minni eftirspurn er eftir nauðsynjavörum og öðru slíku en væri ef gengið væri sterkt. Þannig að með gjaldeyrishöftin, með þetta veika krónu og þessa stefnu er í raun verið að dæma Íslendinga til þess að búa við lakari lífskjör en nágrannaþjóðirnar og því er mjög brýnt í velferðarlegu tilliti að aflétta gjaldeyrishöftunum. Jafnframt ber þetta vott um að stefnan sem Seðlabankinn fylgir í þessu er röng. Hún er allt of hægfara og, eins og ég sagði áðan, endurspeglast það hér í greinum í frumvarpinu að þar á bæ er mesta áherslan lögð á eftirlit, stjórnvaldssektir og að herða höftin. Því eru öftustu greinarnar í frumvarpinu mér mikil vonbrigði og jafnframt sá tónn sem virðist vera sleginn í frumvarpinu að veita eigi Seðlabankanum auknar rannsóknarheimildir.

Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins segir um 11. gr., með leyfi forseta:

„Í 11. gr. frumvarpsins er lagt til að heimildir Seðlabanka Íslands til að afla upplýsinga vegna lögbundins eftirlits bankans með lögunum verði ekki eingöngu bundnar við upplýsingar er lúta að gjaldeyrisviðskiptum.“

Það er algjörlega ljóst að með þessu er verið að útvíkka rannsóknarheimildir Seðlabankans og það er alls ekki ljóst af lögunum hvar þær rannsóknarheimildir enda. Hægt er að túlka þetta ansi vítt og Seðlabankinn getur nýtt þetta lagaákvæði, ef frumvarpið verður að lögum, til þess að ná í ansi víðtækar upplýsingar. Óhætt er að segja að hér sé verið að sneiða mjög að persónufrelsi vegna þess að ljóst er að allir einstaklingar eiga rétt á að halda sínum hlutum fyrir sig svo framarlega sem það eru ekki lögbrot, en vegna þess að þetta tengist ekki beint gjaldeyrishöftunum eins og þetta er orðað í 12. gr. er verið að sneiða að persónufrelsi og persónuleynd.

Jafnframt koma ákvæðin um gríðarlega hækkun stjórnvaldssekta manni spánskt fyrir sjónir. Rökstuðningurinn er sá að ef um stór brot er að ræða núna þar sem miklar fjárhæðir eru í húfi séu heimildir til stjórnvaldssekta allt of veikburða og þar af leiðandi þurfi Seðlabankinn að vísa málum þar sem um stórar fjárhæðir er að ræða og flokkast hafa sem minni háttar mál í það að teljast meiri háttar mál sem fara þá í einhvers konar sakamálameðferð og lögreglurannsókn og enda væntanlega fyrir dómstólum. Það finnst mér ekki mjög góður rökstuðningur og ákaflega miður ef satt reynist að hér hafi menn verið að vísa brotum á gjaldeyrishöftum, sem undir öllum eðlilegum kringumstæðum væri hægt að leysa með stjórnvaldssektum eins og hér er sagt, til sérstaks saksóknara bara í þeirri von að ná fram meiri stjórnvaldssektum, meiri hefnd, en núgildandi lög kannski leyfðu.

Ég er ánægður með þann hluta sem lýtur að því að rýmka heimildir og ég tel að ofuráhersla okkar á Alþingi eigi að vera á það að rýmka þessar heimildir sem mest. Ég var á móti því að setja reglugerðir sem lutu að gjaldeyrishöftum í lög, ég taldi að það mundi festa gjaldeyrishöftin enn frekar í sessi og mér sýnist að sú sé raunin. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnvöld og Alþingi eigi með öllum ráðum að hverfa af þeirri braut sem við höfum verið á undanfarin ár, að taka þetta allt saman í einhverjum rólegheitum og gera ekki neitt nema hafa velt því tíu sinnum fyrir sér og helst þrjátíu sinnum í viðbót þannig að öruggt sé að hvergi falli blettur á einhverja embættismenn. Kostnaðurinn af því er sá að þjóðfélagið er læst í höftum sem leiðir til þess að velferð minnkar í landinu, sem leiðir til þess að fyrirtækin geta ekki stundað þá atvinnustarfsemi sem þau vilja. Síðast en ekki síst, sem einhverjir gætu kannski lagt eitthvað upp úr, er náttúrlega ekki gaman til þess að vita að við Íslendingar séum að brjóta EES-samninginn, að brjóta eitt atriðið í fjórfrelsinu sem við lögðum svo mikið upp úr að fá og leggjum svo mikið upp úr, þ.e. frjálsum fjármagnsflutningum.

Mér finnst hér hægt vera farið en aftur á móti fagna ég því náttúrlega í lagafrumvarpinu sem snýr að því að létta eitthvað undir með þeim sem eru háðir þessum höftum, þ.e. venjulegum einstaklingum, en jafnframt er ég ósáttur við þessi eftirlitsákvæði og að menn skuli enn vera að herða sektir og annað slíkt. Við eigum ekki að leggja áherslu á það, við eigum fyrst og fremst að leggja áherslu á að létta höftunum.