Gjaldeyrismál

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 17:53:10 (8659)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[17:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma okkar hér á föstudagseftirmiðdegi í að yfirfara helstu rök um efnahagsstjórn á landinu næstu missirin, en vil fagna því frumvarpi sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram, enda lýtur það fyrst og fremst að því að létta þeim höftum sem við þurfum því miður að búa við. Það er sannarlega brýnt að vinna sem fyrst að afnámi þeirra þótt ýmsir hlutir séu þar nokkuð í vegi okkar, m.a. okkar séríslenska verðtryggingarkerfi sem gerir auðvitað mjög erfitt og vandasamt að fara í ferli sem getur leitt til verulegra breytinga á gengi krónunnar og þar með verðbólguskots.

Ég tel að flestar þær breytingar sem hér er verið að gera séu sannarlega til bóta fyrir þá sem þurfa við þetta að búa. Þetta mál er framlagt eftir að kallað var eftir því í þinginu að létt væri á sem flestum þeim atriðum sem snúa að almenningi, venjulegu fólki og fyrirtækjum í þessu efni. Ég fagna því og við munum í efnahags- og viðskiptanefnd leitast við að taka það sem fyrst á dagskrá til efnislegrar umfjöllunar og koma því til 2. og 3. umr. þegar í næsta mánuði og vonandi ljúka og gera að lögum fyrir þinglok.