Gjaldeyrismál

Föstudaginn 27. apríl 2012, kl. 18:15:08 (8662)


140. löggjafarþing — 90. fundur,  27. apr. 2012.

gjaldeyrismál.

731. mál
[18:15]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Í lok þessarar umræðu þakka ég hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í henni. Flestir hafa tekið því vel að hér væri verið að rýmka reglur og líta jákvæðum augum á að minnsta kosti þann þátt málsins. Varðandi hitt sem snýr að því að styrkja framkvæmdina lít ég ekki svo á að um mótsögn sé að ræða í sjálfu sér. Þar er annars vegar um að ræða að rýmka reglurnar og gera þær þjálli fyrir þá sem við eiga að búa, en hins vegar að tryggja að að því marki sem þær áfram gilda sé farið eftir þeim og þær virtar. Til þess þarf að vera hægt að hafa eftirlit og beita úrræðum. Það er ekki mótsögn í þessu í sjálfu sér.

Varðandi upplýsingaþáttinn hvet ég til þess að það verði skoðað í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og rætt við Seðlabankann hvort afmarka megi betur þær upplýsingaöflunarheimildir sem þarna er verið að fara fram á. Það er að sjálfsögðu ekki ástæða til að rýmka þær meira en sem nemur þörf fyrir það að hægt sé að fylgjast með framkvæmd laganna.

Ég lít þar af leiðandi fremur á þetta sem eitt af skrefunum á leið okkar út úr höftunum en alls ekki öfugt og minni á að þegar hafa verið tekin skref í þeim efnum eins og strax haustið 2009, ef ég man rétt, þegar nýjar fjárfestingar voru algerlega opnaðar, bæði innstreymi fjármagns vegna þeirra og sömuleiðis að menn gætu þá flutt út fjármuni óháð höftunum vegna þeirra fjárfestinga. Við erum að halda áfram á þeirri braut.

Það er auðvitað rétt sem menn hafa nefnt hér að þetta er stórt og mikilvægt mál og brýnt að vinna ötullega að því en um leið er það vandasamt. Ég hef engan heyrt mæla með því heldur að við tökum óverjandi áhættu, hvorki hvað varðar gjaldeyrisforða okkar né stöðugleika í efnahagsmálum. Við erum að reyna að feta okkur áfram þessa leið þannig að við glötum ekki þeim brothætta stöðugleika sem okkur hefur þó tekist að innleiða og fórnum ekki þeim ávinningi enda hefur það kostað sitt að ná honum fram.

Hv. þm. Birgir Ármannsson bað mig að lýsa viðhorfum mínum til þessara mála. Ég tel að því sé ekkert til fyrirstöðu að við fylgjum áfram þeirri áætlun sem mótuð hefur verið. Vissulega hefði verið æskilegt að sjá framvindu hennar ganga hraðar fyrir sig, til dæmis að þeim hluta hennar sem var fremstur í röðinni og snýr að uppboðum til þess að bæði afla upplýsinga um stöðuna í þessum efnum og hleypa óþolinmóðasta fénu þá út eftir atvikum í slíkum farvegi. Sömuleiðis fjárfestingarhlutann, að þeir sem vilja koma inn á móti geti gert það á góðum kjörum með því að geta að hluta til nýtt sér gengi á aflandskrónum, að það hefði gengið hraðar. En nú eru fram undan að minnsta kosti tvö slík útboð og verður fróðlegt að sjá hvernig þau ganga.

Í reynd er fyrst og fremst um greiðslujafnaðarmál að ræða því að verðmætin í sjálfu sér eru til staðar, en það varðar greiðslujöfnuð landsins að takast á við það hvernig losuð er sú staða sem þarna er komin upp.

Ég svara seinni spurningu hv. þingmanns líka játandi, að ég lít á þetta sem lið og skref í átt til afnáms hafta en ekki öfugt.

Að lokum varðandi spurningu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar skal ég fúslega viðurkenna að ég þekki ekki til þessara hluta í smáatriðum. Hvað varðar það hversu mikið eftirlit sé haft með einstökum færslum þegar greiðslur einstaklinga eiga í hlut þá kæmi mér á óvart ef það væri svo í alvörunni að menn væru að vakta hverja einustu greiðslu, hverja einustu færslu í Reiknistofu bankanna eða þegar kreditkortafærslur eiga sér stað. En það er ugglaust þannig eftirlitsins vegna að það er mögulegt að fylgjast með gjaldeyrisfærslum og stórgreiðslukerfin eru að sjálfsögðu innan vébanda Seðlabankans, þannig að ég hefði nú ímyndað mér að menn væru þá frekar uppteknir af stóru fjárhæðunum en hinum.

Það er best að segja ekkert meira um það en maður hefur upplýsingar í höndunum til að gera. Ég er hins vegar fús til þess að afla mér upplýsinga um þetta mál og kanna það og skal reyna að skila því af mér til hv. þingmanns eða annarra.