Neytendalán

Mánudaginn 30. apríl 2012, kl. 20:32:22 (8780)


140. löggjafarþing — 92. fundur,  30. apr. 2012.

neytendalán.

704. mál
[20:32]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Það getur vel komið til greina að við vissar aðstæður megi líta til þess að það verði hreinlega að draga úr stuðningi ef menn telja að hann sé að skrúfa upp fasteignabólu eða eigi þátt í að skapa óeðlilegt ástand. Það er þó neyðarkostur að mínu mati að fara í þann enda málsins því að þá erum við að tala um að draga úr stuðningi við fólk sem hefur þegar riðið sér skuldbindingar og er með afborganir af sínum húsum. Ég held að það sé fyrst og fremst mikilvægt að stemma stigu við því að það myndist spírall sem skrúfi upp fasteignaverðið og síðan elti skuldsetningin sem hún er eiginlega dæmd til að gera, svo lengi sem menn eru í séreignarstefnu og fólk er að berjast við að kaupa sína fyrstu íbúð eða stækka við sig. Það er auðvitað viðkvæmasta aldursskeiðið þegar menn ráðast í fyrstu fjárfestinguna eða auka hana með stækkandi fjölskyldu og kaupa stærra húsnæði. Þá má aldrei standa þannig að húsnæðislánum, veðsetningarhlutföllum eða hámarksfjárhæðum lána að það sem slíkt fari að skrúfa upp markaðsverðið.

Auðvitað þarf alltaf að bera tiltekinn byggingarkostnað og endurnýjunarkostnað en við vitum vel að þegar fasteignabólurnar eru komnar á skrið myndast yfirverð og jafnvel bullandi yfirverð sem leggst ofan á skuldirnar og einhver hirðir, sá sem byggir íbúðina eða stundar fasteignaviðskiptin. Það var það sem gerðist hér, það var komið margra milljóna króna yfirverð á blokkaríbúðir miðað við byggingarkostnað. Enginn tók eftir því af því að það var hægt að fá nóg lán og menn töldu sér trú um að það væri fullnægjandi veð í pípunum.

Auðvitað tók steininn úr í þessari ógæfusögu þegar bankarnir ruddust inn á fasteignalánamarkaðinn í kjölfar þess að íbúðalánin voru hækkuð í 90%. Svo kórónaðist ógæfan með því að menn fóru að halda að fólki þeim möguleika að taka erlend (Forseti hringir.) eða gengistryggð lán til húsnæðiskaupa með allar sínar tekjur í krónum.