Atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða

Föstudaginn 04. maí 2012, kl. 14:59:40 (9419)


140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[14:59]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að við höfum sameiginlega sýn á mikilvægi þess að bæta endurhæfinguna. Og við höfum sameiginlega sýn á það að við þurfum að skerpa fókusinn í því að meta starfsgetu en ekki það sem fólk getur ekki. Í tengslum við endurskoðun á almannatryggingafrumvarpinu er einmitt þessi vinna sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, Bollanefndarvinnan o.fl., undir í því að breyta matskerfinu þannig að í örorkumatinu verði horft á starfsgetu en ekki örorku. Þetta hafa Norðurlandaþjóðirnar gert að undanförnu. Það hafa þegar komið upp árekstrar í sambandi við þjónustu yfir landamæri eins og kallað hefur verið, það hefur verið vegna ósamræmis á milli landa. Þessi vinna er að fara í gang undir þeirri nefnd sem er að vinna að endurskoðun almannatryggingakerfisins. Þá verða þessi 75% mörk afnumin því að þá verður metið í fleiri skrefum hver getan er til að vera á vinnumarkaði og að hve miklu leyti menn þurfa bætur til hliðar við það.

Varðandi sjúkrasjóðina treysti ég mér síður til að svara því, ég þekki það ekki eins vel. Þeir hafa auðvitað haldið fólki uppi. Þetta hefur verið þannig í kerfinu að þegar menn hafa verið búnir að fullnýta sinn rétt tekur opinbera kerfið við. Það er reiknað með því að einhverju leyti áfram þannig að ég treysti mér ekki alveg til að taka undir þær hugmyndir sem hv. þingmaður hefur. Hann kemur kannski með betri skýringar á því hvað hann á við í seinna andsvari.