Atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða

Föstudaginn 04. maí 2012, kl. 15:03:31 (9421)


140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[15:03]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni þegar hann segir að öryrkjar eru ekki öryrkjar vegna þess að þeir vilji vera það. Þetta er fólk sem gjarnan vill vera á vinnumarkaði og skila sínu, en hefur af einhverjum ástæðum ekki tækifæri eða getu til þess. Það er einmitt megintilgangurinn með þessu frumvarpi, það sem stundum hefur verið notað um hið leiðinlega orð „snemmígrip“, þ.e. grípa strax inn í, og reyna síðan að halda tengslum þar sem fólk dettur úr vinnu vegna veikinda eða slysa, að halda tengslum á milli atvinnurekenda og viðkomandi launþega, jafnvel að viðkomandi geti komið inn í áföngum, jafnvel í stuttan tíma. Þannig gætu tengslin haldist, það eykur mjög líkurnar á því að viðkomandi komi aftur inn á vinnumarkaðinn. Það að örorkukerfið hefur í raunveruleikanum gripið mjög marga einstaklinga er hluti af þeim hvata að launþegahreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins fóru út í VIRK-Starfsendurhæfingarsjóð, að menn vilji hjálpa fólki til að komast hjá því að verða öryrkjar, vilji gera allt sem hægt er til að hjálpa fólki að nýta getu sína frekar en að dæma það út af markaðnum.

Þetta frumvarp mun auðvitað fá vandaða umfjöllun í velferðarnefnd þannig að ég held að engin ástæða sé til þess að rökræða þetta frekar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessum viðbótarmálum og taka þessu frumvarpi svona vel.