Atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða

Föstudaginn 04. maí 2012, kl. 15:07:19 (9423)


140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[15:07]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt af því sem ég hafði verulegar áhyggjur af þegar VIRK fór af stað á sínum tíma var einmitt það að hér gæti orðið tvöfalt kerfi. Þess vegna eru sett inn í þessi lög nokkuð skýr ákvæði um hvert hlutverkið er, þ.e. að fyrst og fremst er um að ræða ráðgjöf. Þetta með fjöldann er tryggt bara til þess að ekki sé hægt að útiloka neinn frá því að koma inn á markaðinn, en þar eru settar mjög háar tölur til að ákveðinn fjöldi sé á bak við þannig að hægt sé að veita viðunandi þjónustu. Í dag er VIRK eitt á markaðnum. Síðan sjá starfsendurhæfingarstöðvar um framkvæmdina og eru í sjálfu sér ekki hluti af ráðgjöfinni heldur taka við og sjá um framkvæmdina, endurhæfinguna, og vinna á gólfi, ef svo má segja, við það sem ráðgöfin hefur leitt af sér og í samræmi við þá samningar sem gerðir hafa verið um slíka framkvæmd.

Á sínum tíma var búið að stofna starfsendurhæfingarsjóði til að tryggja að til væri þjónusta á hinum mismunandi stöðum á landinu og þetta á alveg að geta keyrt hlið við hlið, annars vegar það sem er undir VIRK eða sambærilegri starfsendurhæfingu sem er nú þegar með útstöðvar úti um allt land — sem veitir ráðgjöfina og er með þjónustu, bakland móðurstöðvanna hér á höfuðborgarsvæðinu — og hins vegar starfsendurhæfingarstöðvar þar sem tryggt er framboð af sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfurum eða sálfræðingum, þeim sem þarf að leita til, sem þjónustan er síðan keypt af, að til sé einhver ákveðinn grunnur.

Þetta hefur töluvert mikið verið rætt. Það er ákveðinn skilningur fyrir því að það þurfi að tryggja að ákveðinn mannauður sé til á hverju svæði til að hægt sé að veita þjónustu sem næst notendum. Ég vona að það verði betur rætt og útfært í velferðarnefnd, en það er eitt af því sem við vorum að reyna að ná utan um með þessu lagafrumvarpi.