Atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða

Föstudaginn 04. maí 2012, kl. 15:09:19 (9424)


140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[15:09]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta skýra svar og vona svo sannarlega og heyri að við hæstv. ráðherra erum sammála um þetta mál. Það skiptir mjög miklu máli að þessi þjónusta sé nálægt notendum hennar þannig að við þurfum að vera með þessar stöðvar vítt og breitt um landið. Ég held að einhvern veginn þurfum við smám saman hér í þessu strjálbýla landi okkar að læra að annars vegar er eðlilegt og gott að stofnanir séu styrkar og innan þeirra sé ákveðinn fjöldi um leið og við tryggjum að það er líka eðlilegt að hér séu fámennar stofnanir sem sinna saman hlutverkunum. Þar sem ég á sæti í velferðarnefnd mun ég gæta þess að þetta mál verði tiltekið sérstaklega og að við skoðum hvort það sé ekki öruggt að sá sem þarf á starfsendurhæfingu fái þá þjónustu, með þeim góðu markmiðum sem hér eru sett fram, hvar sem hann býr á landinu.