Heiðurslaun listamanna

Föstudaginn 04. maí 2012, kl. 15:34:25 (9430)


140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[15:34]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef beðið um að fá að tala hér á eftir og ætla þá að gera almennar athugasemdir til nefndarmanna, en mig langar þar að auki að fá svar við einni spurningu og ræða við hv. formann nefndarinnar. Ég á þess ef til vill ekki kost að verða hér við lok umræðunnar þannig að ég fer þessa leið.

Spurningin varðar fjölda þeirra listamanna sem heiðurslaun ættu að fá samkvæmt þessum lögum. Í frumvarpinu er talað um allt að 25. Spurningin er auðvitað: Hvers vegna er þessi tala valin? Í sjö ár, jafnvel átta, hafa þeir sem fá þessi laun frá Alþingi verið fleiri en 25, voru 27 árin 2005 og 2006 og 28 eða 29 núna síðustu árin. Flestir voru þeir 30 árið 2007, kannski ekki að furða þó að þeim fækkaði eitthvað eftir það. Ég held að það sé betra að hafa svigrúm í þessu. Í þeirri þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður var svo vingjarnlegur að nefna, sem ég flutti fyrir nokkrum árum, talaði ég um 25–40 þannig að menn hefðu svigrúm í báðar áttir. Þetta er sérlega mikilvægt af því að hér er um að ræða lög sem yrði erfiðara að breyta ef menn vildu hafa fleiri en 25 á listanum.

Auðvitað vakna spurningar um það hvernig nefndarmenn hafa hugsað sér skipan næsta lista heiðurslaunalistamanna því að núna eru þeir 28. Ég fylgist ekki með andlátum manna í bænum eins og skyldi (Forseti hringir.) en ég held að aðeins einn af þeim sé látinn síðan í desember.