Heiðurslaun listamanna

Föstudaginn 04. maí 2012, kl. 15:39:10 (9433)


140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það. Til stóð að hafa bráðabirgðaákvæði sem gerði okkur kleift að trappa fjöldann á listanum núna niður í 25 á einhverjum tíma. Ég tek undir þetta sjónarmið, það skiptir bæði máli hvernig er ákveðið að velja inn á listann og við ræddum, eins og ég sagði áðan, töluvert hvort ætti að framselja þetta val frá Alþingi til einhverra annarra. Mín persónulega skoðun var afdráttarlaust sú að ég var á móti því, þá væru þetta ekki lengur heiðurslaun Alþingis og þá væri réttara að leggja þau af. Ég vil ekki leggja þetta af, ég tel að svona sé þessu vel komið fyrir. Mín vegna mætti talan gjarnan vera hærri enda má líta til þess að á síðustu áratugum hefur listamönnum á ári og af hverri kynslóð fjölgað talsvert og fleiri listgreinar sprottið upp og náð flugi. Vert er að ná til fleiri listamanna og fleiri greina en við höfum gert í gegnum tíðina.

Ábendingin er komin fram með mjög málefnalegum og afdráttarlausum hætti eins og þingmaðurinn nefndi og við munum taka hana til sérstakrar skoðunar í nefndinni.