Heiðurslaun listamanna

Föstudaginn 04. maí 2012, kl. 16:07:33 (9441)


140. löggjafarþing — 95. fundur,  4. maí 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vildi fyrst og fremst þakka þingmönnum þátttökuna í umræðunni. Ég geri alls ekki lítið úr viðhorfum neinna í þessu máli. Það stendur hvergi skrifað í skýin að Alþingi eigi að veita heiðurslaun listamanna. Það er ekkert sjálfsagt við þetta frekar en svo margt annað. Þess vegna var fyrsta spurningin sem við þurftum að svara í þessari vinnu í vetur hvort við ættum almennt að halda þessu úti eða ekki, hvort við ættum að leggja þetta af o.s.frv. Vinnan gekk mjög vel og við tókum okkur nokkurn tíma í það, undirnefndin, að fara í gegnum það, fyrst þessa grundvallarpælingu. Niðurstaða okkar, þingmanna úr þremur flokkum, varð sú að halda þessu úti. Við vorum öll mjög eindregið á þeirri skoðun að það væri sannarlega tilgangur með heiðurslaunum áfram. Ég sagði aldrei að þetta snerist ekkert um launin fyrir neinn, ég sagði að ég teldi að í hugum flestra væri það heiðurinn sem skipti meginmáli af því að sem betur fer væru margir fjárhagslega sjálfstæðir og þyrftu ekkert sérstaklega á peningunum að halda. Hins vegar þekkjum við dæmi þess að fyrir listamenn sem hafa fengið heiðurslaun hefur það skipt mjög miklu máli, mjög tekjulitla listamenn sem hafa lent utan þess kerfis sem við mörg erum í sem safnar upp lífeyri.

Hv. þm. Mörður Árnason nefndi áðan réttilega að lífeyrismál listamanna væru afar misjöfn og yrðu það sjálfsagt alltaf. Ég held að það sé alveg rétt hjá honum. Fyrir einhverja hefur þetta sjálfsagt fjárhagslega þýðingu og ber alls ekki að gera lítið úr því. Það má líka reikna út hvað ríkið fær beint og óbeint til baka af öllum þeim fjármunum sem það setur til lista og menningar. Ég held að það fái hverja krónu margfalt til baka með einhverjum hætti, með beinum hætti strax í gegnum skatta, skyldur, veltiskatta og annað sem fólk nýtir þessi laun í sér til framfærslu og óbeint svo að þetta hvetur til enn frekari listsköpunar. Svo má benda á að listamenn sem fara á heiðurslaunalista Alþingis eru með í laun jafngildi starfslauna launþega hjá starfssjóðum listamanna þannig að það skapar aukið svigrúm fyrir yngri listamenn að fá starfslaun þegar þessir listamenn fara inn á heiðurslaunalistann.

Ég fullyrði að það stangast ekki á, eitt útilokar ekki annað í því að auka og efla stuðning við yngri listamenn um leið og við heiðrum og launum eldri hóp listamanna. Ég held að hvort tveggja skipti jafnmiklu máli. Við erum með þessu að færa kerfið til nútímans. Ef mér telst rétt til er þetta 45 ára gamalt fyrirkomulag, eins og ég sagði. Við sem höfum setið í menntamálanefnd í einhvern tíma, ég sjálfur sem stjórnarandstöðuþingmaður í gömlu menntamálanefndinni 2003–2007, munum alveg það sem báðir hv. þingmenn Siv Friðleifsdóttir og Mörður Árnason nefndu áðan, deilur og pólitík sem skyggja á launin. Það er hundleiðinlegt þegar fréttir berast af hörðum átökum í nefndinni um tiltekna listamenn sem báðu ekkert um að það væri tekist á um það hvort þeir ættu að fara á listann. Svo fer kannski einn þeirra á listann en hinir ekki. Þetta skyggir á, dregur úr heiðrinum og ánægjunni af að halda þessu úti og fyrir þá sem hlotnast heiðurinn.

Þess vegna leggjum við fram tillögu um að nefnd geri tillögur að því hverjir þetta séu til að draga fram faglegan bakgrunn o.s.frv.

Ég held að kerfið hingað til hafi, eins og ég sagði, verið afar gallað. Fyrir einhverja skipta peningarnir engu máli, aðra skipta þeir öllu máli. Ég get nefnt dæmi en vil það ekki, en við mörg sem höfum verið í nefndinni þekkjum að það hefur verið svo. Maður hefur fengið um það upplýsingar. Ég geri ekki lítið úr sjónarmiðum þeirra sem vilja almennt ekki halda þessu úti af því að það er bara okkar ákvörðun hvort og hvernig eigi að gera það. Það er ekkert sjálfsagt við það, það er matskennt. Við munum leita til Bandalags íslenskra listamanna um tilnefningar. Ég tel eðlilegt að við gerum þetta og þetta er partur af fjárfestingu samfélagsins í listum og menningu.

Listir og menning eru undirstaða samfélagsins og undir það taka flestir þingmenn. Svo getum við rökrætt um það lengi, og ættum að gera það kannski oftar, með hvaða hætti við fjárfestum í listum og menningu. Það hefur verið reiknað út, sem margir auðvitað vissu, að auðurinn og arðurinn af þessu, bæði andlegur og veraldlegur, er gífurlegur. Hann hefur í gegnum tíðina verið mjög vanmetinn. Ég held að hver einasti listamaður sem við getum séð til þess að hafi tekjur og framfærslu af list sinni og skapað meiri list skili okkur enn þá meiri auði og arði.

Ég vona að okkur takist að vinna þetta vel. Við munum fá umsagnir um þetta mál, kostnaðarútreikning o.fl. og ræða þetta svo aftur síðar í mánuðinum við 2. umr. Ég þakka þingmönnum fyrir ábendingar, hvort sem þeir eru með þessu eða á móti, af því að þær skipta allar miklu máli. Rökræðan um þetta skiptir máli. Það er ekkert sjálfsagt eða endanlegt í þessu, þetta er alltaf undirsett rökræðu og endurskoðun. Núna, tæpri hálfri öld eftir að Alþingi byrjaði að veita listamönnum heiðurslaun, leggjum við úr meiri hluta nefndarmanna, úr þremur flokkum, til að við færum þetta til nútímans, að þessi rammi verði settur utan um heiðurslaun listamanna og þar með verði því haldið áfram á Alþingi að veita tilteknum hópi listamanna heiðurslaun. Ég hef sannfæringu fyrir því að það sé rétt ákvörðun hjá okkur að gera það.