Lokafjárlög 2010

Föstudaginn 11. maí 2012, kl. 16:11:37 (9813)


140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[16:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka sömuleiðis hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir vinnuna við þessi lokafjárlög. Það er margt gott í áliti meiri hlutans en líka margt sem ég er ekki alveg sáttur við og það er kannski meiningarmunur á milli manna eins og gengur.

Í áliti meiri hlutans er nefnt að fjármálaráðuneytið vinni nú að endurskoðun á lögum nr. 88/1997. Í mínum huga er þetta brýnasta verkefni Alþingis. Í rauninni hefði átt að vera búið að vinna þetta fyrr vegna þess að ég held að öllum hafi verið ljóst þegar hrunið varð að ýmsu væri ábótavant í fjárstjórn ríkisins.

Í þessu áliti segir að áætlað sé að frumvarpið verði tilbúið í sumar. Það er í rauninni verið að seinka framlagningu þess vegna þess að í utandagskrárumræðum sem ég hóf rétt eftir jól um aga í ríkisfjármálum var fullyrt að unnið yrði að frumvarpinu strax eftir áramót og það yrði klárað á vormánuðum. Nú er það svo að næsta haust munum við vinna að fjárlögum þessa árs, það verður gríðarlega mikil vinna, og við ætlum að vinna það samhliða þessu. Eftir áramót er bara komið að kosningum.

Ég ætla að ítreka beiðni mína sem ég lagði fram í gær, en formanni fjárlaganefndar hefur kannski ekki gefist tími til að svara henni á þeim stutta tíma sem hún hafði þá: Er ekki ráð að allir flokkar á þingi vinni að þessum fjárreiðulögum (Forseti hringir.) í sameiningu og að frumvarpið verði tilbúið að mestu leyti í haust? Ég lýsi því aftur yfir að ég er reiðubúinn að vinna að þessu (Forseti hringir.) verkefni í allt sumar ef þarf.