Lokafjárlög 2010

Föstudaginn 11. maí 2012, kl. 16:50:18 (9818)


140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[16:50]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þessari umræðu. Ég spurði hv. formann fjárlaganefndar að því áðan hvort hún væri reiðubúin að beita sér fyrir því að fjárlaganefnd mundi öll leggja fram breytingar á fjárreiðulögum og fékk því miður neikvætt svar.

Hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni að í raun væri með nýjum fjárreiðulögum verið að minnka áhrif og völd ráðuneyta og ríkisstofnana, eins og ég skildi ræðu hans, þ.e. það hafa verið misbrestir og margt þyrfti að laga. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann og Sjálfstæðisflokkurinn sé reiðubúinn að taka þátt í samstarfi þar sem allir flokkar mundu leggja fram breytingar á fjárreiðulögum og sú vinna yrði unnin í sumar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það verði gert og ég held í raun eina ráðið til að styrkja þessa lagagerð til langframa, eins og þingmaðurinn kom að í ræðunni.

Ég óttast líka að í öllu havaríinu næsta haust, þegar ný fjárlög verða lögð fram, muni þessi nýju lög lenda milli stafs og hurðar. Jafnvel þótt við mundum fresta þeim fram yfir áramót tel ég engar líkur á því að ráðist verði í róttækar breytingar korteri fyrir kosningar.