Lokafjárlög 2010

Föstudaginn 11. maí 2012, kl. 16:56:53 (9821)


140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil alveg áhyggjur hv. þingmanns af því hve hægt þokast og get tekið undir það, mér hefur sjálfum oft fundist mikið talað og lítið gert, eins og stundum er sagt. Ég er þó ekki að deila á forustu hv. fjárlaganefndar, það má ekki skilja mig þannig.

Hv. þingmaður segir: Það kemur fram í meirihlutaálitinu að lokafjárlögin eru lögð fram fyrr nú en áður, en ég held að við eigum ekki að staldra við það. Ég held að við eigum bara að reyna að koma í gagnið þessum breytingum og verklagi sem við höfum rætt í hv. fjárlaganefnd og engar deilur eru um. Og eitt af því sem nú er rætt, nú veit ég ekki hvort það muni ganga eftir, er að stefna að því að árið 2013 verði lögð fram fyrstu rammafjárlögin, taka umræðuna um þau og marka rammana og vera þá ekki í þessum æðibunugangi á haustin.

Hv. þingmaður kom inn á þær breytingar sem urðu í Svíþjóð í kjölfar kreppunnar þar fyrir um 15–18 árum. Það stendur auðvitað upp úr þeirri ferð til Svíþjóðar sem við vorum saman í, ég og hv. þingmaður, þessi agi þar í fjárlögunum. Við erum til dæmis að ræða hluti í lokafjárlögum fyrir árið 2010 sem engum í Svíþjóð dytti í hug að gera eins og gert er í þeim, engum. Ég man eftir því þegar maður var að spyrja þessa ágætu þingmenn, starfsmenn þingsins og starfsfólk stofnana og ráðuneyta, um þessi mál og spurði: Hvernig er staðið að því þegar stofnanir fara fram úr eða þegar lögð eru fram lokafjárlög? Þá skildu menn ekkert um hvað maður var að tala því að þetta þekkist ekki þar. Það er ákveðin „böffer“, ef ég má nota það orð, eða svigrúm í fjárlögunum og því er ekkert breytt, það er bara þannig. Það er auðvitað slíkur agi sem við þurfum til að geta sett okkur langtímamarkmið í ríkisfjármálum í stað þess að vera alltaf með ár fram í tímann. Svo er deilt um afkomu ríkissjóðs en í raun sjáum við hana ekki fyrir löngu seinna, jafnvel ári, einu og hálfu ári eða tveimur árum seinna hver niðurstaðan var (Forseti hringir.) og það er auðvitað algerlega óásættanlegt.