Lokafjárlög 2010

Föstudaginn 11. maí 2012, kl. 16:59:17 (9822)


140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[16:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir samstarfið við gerð þessara lokafjárlaga. Í áliti minni hlutans segir að unnið hafi verið ítarlega að þessu frumvarpi og ég held að það sé rétt. Hins vegar er fullyrt í áliti meiri hlutans að nefndin hafi farið yfir frumvarpið með mun ítarlegri hætti en oftast áður. Ég veit hreinlega ekki hvort sú er raunin vegna þess að þetta er ekkert rökstutt. Ég veit að það hefur verið farið ítarlega yfir það en ég óttast að svona ummæli hjálpi ekki í því verkefni sem er fram undan vegna þess að ég efast ekki um að þeir sem hafa setið í fjárlaganefnd á undan okkur hafa líka staðið sig vel þó að þeir hafi kannski ekki séð hætturnar sem við stöndum frammi fyrir núna. Það gerðist nefnilega haustið 2008 að hér varð hrun og það varð ekki bara bankahrun, það er hinn stóri misskilningur í þessu öllu saman, það varð líka annars konar hrun og það hrun snýr að útgjaldaþenslu ríkissjóðs.

Í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem tók til starfa árið 2007 voru ríkisútgjöldin aukin um 20% á mestu þenslutímum í sögu þjóðarinnar. Ég held að það hafi líka átt sinn þátt í því að hér varð mikið hrun og að tekjur ríkissjóðs hafi dregist saman eins og raun ber vitni. En það sem átti að gerast við hrunið var að viðhorfsbreytingin átti að eiga sér stað þá, því ef ekki þá, hvenær?

Við erum sammála um það sem sitjum í fjárlaganefnd að það verklag sem tíðkast nú og hefur viðgengist um árabil er öllum flokkum um að kenna. En núna átti viðhorfsbreytingin að eiga sér stað og að mínu mati átti að vera búið að ráðast í breytingar á fjárreiðulögum. Það var ekki bara Icesave og öll umræðan þar í kring sem gerði það að verkum heldur líka ítrekuð álit frá Ríkisendurskoðun sem benti á að fjárstjórnin væri með þeim hætti að hún þyrfti nauðsynlega að breytast. Lögð hafa verið fram álit, ekki bara frá minni hluta heldur líka meiri hluta, þar sem vandinn er viðurkenndur, tekið er eftir honum og hvatt er til breytinga, en það hefur lítið sem ekkert þokast.

Verst finnst mér í umræðunni þegar þeir sem halda um stjórnvölinn í dag réttlæta núverandi agaleysi með vísun í agaleysi fyrri ára. Það er skref aftur á bak, við komumst ekki upp úr hjólförunum með þeim málflutningi. Ég verð því að viðurkenna að ég varð fyrir töluverðum vonbrigðum þegar fram kom í áliti meiri hlutans að þetta lokafjárlagafrumvarp hafi verið lagt fram mun fyrr en áður hefur verið gert. Í frumvarpinu er tafla sem á að sýna fram á þetta. Það munar tveim mánuðum á árunum 2003 og 2010, þ.e. frá því að frumvarp til fjárlaga er lagt fram og þangað til lokafjárlög liggja fyrir. Þetta eru 22 mánuðir núna en voru 24 árið 2003 og reyndar árið 2005 líka, 27 mánuðir 2009, 26 mánuðir 2008, 29 mánuðir 2007, 2006 27 mánuðir, 24 mánuðir 2005, eins og áður hefur komið fram, og 27 mánuðir 2004. Árin 2002 og 2000 skera sig úr en þar er tímalengdin annars vegar 35 mánuðir og hins vegar 36. Ég held að við komumst ekkert áfram með fullyrðingum um að við stöndum okkur miklu betur en aðrir í fortíðinni. Við ætlum hins vegar að breyta því sem hefur farið aflaga og það er samstaða um það á Alþingi. Ég held hins vegar að ekki sé samstaða um það innan stjórnsýslunnar vegna þess að þá er stjórnsýslan að gefa frá sér vald, vald til að fara aðeins fram úr, taka til sín markaðar tekjur, hækka gjaldskrár örlítið og fleiri hluti sem bent hefur verið á. Ég tel þess vegna mikilvægt að fjárlaganefnd leggi fram nýtt frumvarp til fjárreiðulaga. Það skiptir öllu máli að frumvarpið komi frá Alþingi vegna þess að Alþingi ætlar sér að breyta lögum sem því miður hafa reynst Íslandi til óheilla.

Þetta frumvarp á að leggja fram í haust og fjalla um það samhliða framlagningu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2013. Reynsla mín af fjárlagavinnu er sú að þetta er gríðarleg vinna, borgarafundir úti um allt land, það er skorið niður í heilbrigðismálum og umfjöllun og vinna á bak við það hefur þýtt gríðarlega mikla vinnu, fjölda funda, og að ætla sér að fara um leið yfir ný fjárreiðulög er að mínu mati ekki ráðlegt. Það gæti hins vegar farið svo að ekki náist að klára nýtt frumvarp til fjárreiðulaga vegna þess að fjárlögin fyrir árið 2013 verða í fyrirrúmi en hvað gerist næsta vor? Jú, þá verða kosningar og fyrir kosningar vinnast oft ekki stór mál á Alþingi. Það er í rauninni reynsla sem við ættum að læra af en ekki stefna að.

Í gær var utandagskrárumræða um aga í ríkisfjármálum. Ég fagnaði því að hún færi fram vegna þess að ég hafði sjálfur efnt til sambærilegrar utandagskrárumræðu fyrir nokkrum mánuðum. Í umræðunni var fullyrt að lyft hefði verið grettistaki í þessu máli. Ég held að það sé ekki rétt. Ég held hins vegar að það sé rétt að núna sé samhljómur um að breyta hlutunum. Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga þar sem allir flokkar lýsa sig reiðubúna til að breyta vinnubrögðum og koma að þeirri vinnu. Þetta er í rauninni í samræmi við þá skýrslu sem gerð var, rannsóknarskýrsluna eftir hrunið.

Það var líka fullyrt að þingsköpum hefði verið breytt til þess að efla starf fjárlaganefndar. Ég er ekki sannfærður um að það sé reyndin vegna þess að í þingsköpunum var ákvæði sem í raun kvað á um að fjárlaganefnd ætti að veita efnahags- og skattanefnd umsögn um tekjuhluta fjárlaga, ekki öfugt eins og hefur tíðkast í áraraðir. Það leiddi til þess að engin umsögn kom frá efnahags- og skattanefnd og umfjöllunin í fjárlaganefnd um tekjuhlutann, sem er helmingurinn af fjárlögum hvers árs, var nánast enginn. Nú veit ég, vegna þess að ég hef séð drög að breyttum þingsköpum, að þetta ákvæði verður tekið út, menn hafa séð að þetta voru mistök.

Það gerðist líka að safnliðir, svokallaðir, voru teknir úr fjárlaganefnd og fyrrverandi formaður fjárlaganefndar fullyrti að það væri verið að útrýma kjördæmapoti. Ég held hins vegar að það sé rangt. Ég held að það muni viðgangast áfram en ég hef líka áttað mig á að það eru mismunandi viðhorf til þess hugtaks á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Þegar höfuðborgarþingmenn vinna fyrir sitt kjördæmi er það ekki kallað kjördæmapot en það á hins vegar við þegar við landsbyggðarþingmenn vinnum fyrir umbjóðendur okkar.

Hluti af safnliðunum var færður yfir í ráðuneytin og fullyrt var að þetta yrði unnið með faglegri hætti. Ég hef ekki séð nein rök á bak við þá fullyrðingu. Nú er þetta einfaldlega unnið þannig að starfsmenn ráðuneytisins, embættismenn, ráðstafa þessu fé. En hver ræður á endanum? Jú, það er ráðherra. Ráðherra hefur valdið, embættismenn hafa ekkert raunverulegt vald þannig að þegar allt kemur til alls tókst fjárlaganefnd að auka ráðstöfunarfé ráðherra, margfalda það í sumum tilfellum. Til að mynda hefur ráðstöfunarfé menntamálaráðherra verið nánast tífaldað.

Við ræddum það áðan að við hefðum farið í góða ferð til Svíþjóðar og hún var vissulega góð. Sænskur þingmaður sagði við mig í gamansömum tón: Höskuldur, eftir að við tókum upp aga í ríkisfjármálum fyrir um 20 árum gátu ráðherrar sett fé í ýmsa málaflokka eftir sínum hentugleikum. Þeir höfðu ráðstöfunarfé og gátu deilt því út í ýmis gæluverkefni. Við höfum séð það í gegnum tíðina þegar ráðherrar ljúka störfum eða þegar kemur að þingkosningum að gæluverkefni þeirra fá allt í einu ómælt fé, því miður. Og hann sagði: Hugsaðu þér hvað við vorum á vondum stað þegar þetta var raunin. Ég gat ekki hlegið að þessu, ég var nánast miður mín þegar ég uppgötvaði að þegar við áttum í rauninni að vera að auka aga vorum við á margan hátt að stíga skref í öfuga átt, og mér fannst það með eindæmum sorglegt svo ég taki ekki sterkar til orða.

Núna ríkir samstaða um að minnka hinar mörkuðu tekjur einstakra ríkisstofnana og, eins og ég skil umræðuna, leggja þær af. Framkvæmdarvaldið er hins vegar að leggja fram frumvörp sem miða að því að stofnun eins og RÚV fái sínar mörkuðu tekjur 100% og við deildum um það hér í desember að Fjármálaeftirlitið fengi um 500 millj. kr. aukningu út af mörkuðum tekjum sem áttu að renna í fjárlagaeftirlit.

Þá erum við kannski komin að kjarna málsins. Við komumst ekkert áfram ef núverandi meiri hluti ætlar að fullyrða hér, þvert á staðreyndir, að lyft hafi verið grettistaki hvað varðar aga í ríkisfjármálum. Í áliti meiri hluta fjárlagagnefndar eru nefnilega góðir sprettir. Þar eru góðir sprettir og margt gott og ég finn það á hv. formanni fjárlaganefndar að hún er öll af vilja gerð að breyta því fyrirkomulagi sem hér hefur verið við lýði. Ég held hins vegar að þegar við stöndum fyrir breytingum á fjárreiðulögum næsta haust gerist það sama og gerist oft með formenn nefnda á Alþingi, þeir þora ekki að fara gegn tillögum sem koma frá ráðherra úr eigin flokki og nú er það svo að bæði formaður fjárlaganefndar og fjármálaráðherra eru úr sama flokki.

Við höfum staðið frammi fyrir því ítrekað í fjárlaganefnd að forsvarsmenn stofnana fara fram úr þeim fjárheimildum sem þeir hafa. Ég tók eftir því að ritstjóri Fréttablaðsins, hinn ágæti Ólafur Stephensen, benti á það í leiðara að það væru í rauninni engin viðurlög við því þegar menn færu fram úr. Hann nefndi reyndar aðeins eina stofnun máli sínu til stuðnings en það eru fjölmargar stofnanir þar sem hægt er að sýna fram á hið sama. Nú er staðan þannig að 131 fjárlagaliður er með útgjöld sem eru umfram 4% af fjárheimildum. Það er grafalvarlegt mál.

Það sem ég held að verði að gerast er að við komum okkur saman um forsendurnar, eins og gert er í Svíþjóð. Við verðum að hafa umgjörðina þannig að það sé nánast enginn ágreiningur um þann hagvöxt sem verði á árinu, um verðbólgu, og þær grunnforsendur sem liggja á bak við fjárlagagerð hvers árs. Svíar og Norðurlandaþjóðirnar ræða þessi mál reyndar á vorin. Við ræðum þetta bara um leið og við ræðum útgjöld í fjárlögum. Ég tel algert grundvallaratriði að rammi fjárlaga eða sá peningur sem við ætlum að eyða liggi fyrir á vorin. Þetta skiptir öllu máli, virðulegi forseti.

Í Svíþjóð er þetta þannig að það hvarflar ekki að nokkrum einasta þingmanni að leggja til að settir verði peningar sem ekki eru til í einstök verkefni, hversu gott sem verkefnið er og göfugt. Sá hinn sami væri alltaf spurður að því hvar hann ætlaði að fá peningana. Þetta þýðir í rauninni að Svíar fara ekki í sólarlandaferðir nema þeir viti hvað þeir mega eyða í sólarlandaferðina og þegar þeir koma heim liggur þetta allt fyrir. Við förum í sólarlandaferð, Íslendingar, eins og staðan er núna, og höfum ekki hugmynd um hvað við höfum mikla fjármuni til að eyða, og eins og gengur og gerist fer það stundum úr böndunum og menn fara fram úr sér, eins og hefur kannski tíðkast með Íslendinga í sólarlandaferðum, og svo taka menn á því þegar komið er heim og vinna myrkranna á milli til að láta enda ná saman. Það gerðist hins vegar í október 2008 að þetta var ekki lengur hægt vegna þess að ríkissjóður var tómur. Nú er staðan þannig að skuldastaðan er um 100% af vergri þjóðarframleiðslu, sem er grafalvarlegt mál. Sumir segja reyndar að það sé mun meira og að við höfum ekki tekið til greina atriði sem gera skuldastöðuna enn verri.

Ég læt þetta nægja í bili. Ég þakka hv. fjárlaganefnd fyrir samstarfið við þetta nefndarálit og vona að samstarfið verði áfram gott.