Lokafjárlög 2010

Föstudaginn 11. maí 2012, kl. 17:24:51 (9826)


140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[17:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara niður á sama plan og hv. þingmaður er gjarnan og mig langar að segja að það er ekki möguleiki að hann nái að spilla því góða samstarfi sem hefur ríkt á milli mín og formanns fjárlaganefndar. Ég benti á áðan hvernig þetta hefur legið fyrir mér, og ég vil kannski taka það fram að fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra átti sér einhvern þann harðasta talsmann sem núverandi varaformaður fjárlaganefndar er. Að mínu mati hefur aldrei fyrr í sögu Alþingis fundist jafnharður talsmaður síns ráðherra og varaformaður fjárlaganefndar.

Mig langar að taka fram að ég sagði ekki að hv. formaður fjárlaganefndar mundi ekki þora. Ég benti hins vegar á þau skref sem þyrfti að hræðast.

Hér er fullyrt að ég hafi hvatt til útgjaldaaukningar. Ég veit ekki betur en ég hafi lagt til minni útgjöld, t.d. hvað heilbrigðismálin snertir. Af hverju fer hv. þingmaður ekki rétt með hvað það snertir? Svo hlær hann eins og þetta sé í lagi. Þetta er bara ekki umræða, hv. þm. Björn Valur Gíslason, sem er þinginu til sóma. Þetta eru einfaldlega rangar fullyrðingar.

Mig langar líka að segja að á árinu 2008 lagði Framsóknarflokkurinn til að það yrði ekki 20% útgjaldaaukning á ríkisfjármálum. Það er svo rangt sem haldið er fram að áætlanir þessarar ríkisstjórnar standist. Við höfum bent á í áliti minni hlutans að frumjöfnuðurinn er um 5,5% verri en áætlanir gerðu ráð fyrir (Forseti hringir.) sem er bara skelfileg niðurstaða, virðulegi forseti.

Ég ætla að segja eitt að lokum, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) ég átta mig á því að tíminn er runninn út, ég hvet til áframhaldandi jákvæðs samstarfs (Forseti hringir.) þótt ég skynji það að ekki séu allir í meiri hlutanum reiðubúnir til þess.