Lokafjárlög 2010

Föstudaginn 11. maí 2012, kl. 17:27:23 (9828)


140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Út af orðaskiptum hv. þingmanna áðan vil ég segja að það er mikilvægt að við tölum af raunsæi og horfum af raunsæi á rekstur ríkissjóðs. Niðurstaðan fyrir árið 2010 er með þeim hætti að í raun og veru er afkoman 22,7 milljörðum verri en gert var ráð fyrir. Það er bara staðreynd. Það var gert ráð fyrir að frumjöfnuður yrði tæpir 100 milljarðar, eða 98,8 milljarðar svo að ég sé nákvæmur, en niðurstaðan er hins vegar 123,3 milljarðar. Það er auðvitað mikilvægt að við ræðum þetta út frá staðreyndum þannig að við áttum okkur á viðfangsefninu, þ.e. hversu mikilvægt það er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Það er ekki vandamál að finna verkefni til að eyða peningum í, séu þeir til, en við megum ekki detta niður í umræðu þar sem menn koma og segja: Við náðum alveg frábærum árangri — þegar tölurnar og staðreyndirnar eru með allt öðrum hætti. Það er mjög mikilvægt að við horfum raunsætt á vandamálið.

Gert var ráð fyrir, eins og kemur fram í minnihlutaálitinu um skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum, að fyrir árið 2010 yrði tekjujöfnuður neikvæður um 3% af landsframleiðslu en hann varð hins vegar neikvæður um 5,5%. Við verðum auðvitað að horfast í augu við þetta. Svo getum við greint og rætt það hvað varð í raun og veru þess valdandi að þetta gerðist. En það eru ofboðslega mörg viðvörunarljós sem blikka og við megum ekki og eigum ekki að gera lítið úr þeim.

Aðeins út af umræðu milli hv. þingmanna áðan, ég ætla svo sem ekki að staldra við hana sjálfa, en í allri hv. fjárlaganefnd er sameiginlegur skilningur, samvinna og samstarf við fjármálaráðuneytið og þá starfsmenn sem sinna þessum málum þar. Aðalatriðið að mínu viti er að efla fjárstjórnarvald og fjárstýringarvald þingsins gagnvart verkefninu sem við erum með. Það sem ég var að tala um áðan og fór yfir og kemur fram í minnihlutaálitinu, sem ásamt mér undirrita þrír aðrir hv. þingmenn, Kristján Þór Júlíusson, Höskuldur Þórhallsson og Illugi Gunnarsson, er að gert er ráð fyrir því í fjárlögum að rekstur ríkisins kosti 560 milljarða en niðurstaðan er hins vegar 602, ónýttar fjárheimildir eru færðar á milli ára og síðan er halli upp á tæpa 23 milljarða. Við verðum því að vanda okkur. Það þarf að efla fjárstýringarvaldið, taka mörkuðu tekjurnar inn í ríkissjóð og setja hverja einustu stofnun inn á fjárlagalið. Við höfum nefnilega tækin til að bregðast við þegar viðkomandi stofnanir keyra fram úr. Við erum t.d. nýbúin að fá kynningu frá fjármálaráðuneytinu á þeim ábendingum og mati ráðuneytisins og eins og ég hef sagt er að mínu mati boltinn hjá okkur í hv. fjárlaganefnd. Á næsta fundi nefndarinnar verða einmitt viðkomandi ráðherrar kallaðir inn og spurðir út í það hvers vegna þeir hafi ekki brugðist við með þeim hætti sem til er ætlast. Þetta tvennt er mjög mikilvægt að verði gert, annars vegar að færa mörkuðu tekjurnar í ríkissjóð og að allt fari inn á fjárlagalið og hins vegar að fylgja því eftir og fá betri aðstöðu til að fylgjast með og fara í þá greiningarvinnu á fjárlögum sem við þurfum að gera.

Það sem ég hef vakið athygli á og komst ekki yfir í fyrri ræðu minni áðan og ætla að gera núna er það að mikilvægt er að við áttum okkur á því — auðvitað vil ég þakka bæði Ríkisendurskoðun og fjármálaráðuneytinu og þeim sem hafa komið að þessari vinnu og aflað upplýsinga sem óskað var eftir — að í frumvarpi til lokafjárlaga, sem er lagt fram af hæstv. fjármálaráðherra og skrifað af starfsmönnum hans í fjármálaráðuneytinu, er samhljómur þar sem textinn í frumvarpinu tekur algerlega undir skoðanir og vinnu hv. fjárlaganefndar. Ég sé því ekki þær girðingar sem eiga að vera á milli framkvæmdarvaldsins annars vegar og þingsins hins vegar. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við höldum þessari vinnu áfram og dettum ekki í þann farveg að pexa og rexa um eitthvað sem gæti hugsanlega truflað það.

Niðurstöður í kaflanum frá fjármálaráðuneytinu, sem er mjög góður og lagður fram af hæstv. fjármálaráðherra, eru nákvæmlega þær sem búið er að ræða um í hv. fjárlaganefnd. Ég ætla ekki að lesa úr frumvarpinu í heild sinni en bendi á að hv. þingmenn geta kynnt sér það vel og eiga að gera það. Þar eru niðurstöður ráðuneytisins með þessum hætti, þá erum við að fjalla um sértekjurnar og það er akkúrat sú umræða sem hefur farið fram í nefnd:

Ákvarðanir um ráðstöfun á ríkistekjum einungis teknar í fjárlögum og fjáraukalögum.

Eftiráheimildir í lokafjárlögum leggjast af. — Það er ein gagnrýni minni hlutans gagnvart þeim fjárveitingum sem verið er að úthluta í gegnum lokafjárlög, löngu eftir að búið er að ráðstafa þeim. Það er auðvitað algerlega óþolandi.

Óvissu eytt um það hverjar séu fjárheimildir stofnana á fjárlagaárinu. — Það er vitanlega meginmarkmiðið.

Útgjaldavöxtur í gegnum sjálfvirkt streymi ríkistekna til stofnana leggst af.

Einfaldar fjárlagagerð og reikningsskil stofnana, gerð ríkisreiknings og lokafjárlaga.

Styrkir og einfaldar fjármálastjórn ríkisstofnana og ríkisins í heild.

Styður við útgjaldamarkmið rammafjárlagagerðar.

Styður við fjárveitinga- og fjárstjórnarvald Alþingis.

Þetta er skrifað af hálfu starfsmanna fjármálaráðuneytisins í umboði hæstv. ráðherra og þarna erum við algerlega sammála. Ég segi hins vegar aftur að það vekur ákveðnar áhyggjur að enn skuli unnið með öðrum hætti í einstaka ráðuneytum og það er auðvitað okkar verkefni að fylgja því eftir að þessi markmið gangi fram. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi markmið nái fram að ganga og þær breytingar sem verður að gera á rekstri ríkisins og ríkisfjármálunum og yfirsýn þingsins yfir ríkisfjármálin, eins það að hv. fjármálanefnd geti sinnt eftirlitsskyldu og eftirlitshlutverki sínu. Við megum því ekki hvika frá því að koma þessu fram. Samhljómur er milli ráðuneytis og nefndar og það gefur augaleið að við verðum að klára þetta verkefni.