140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[15:31]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi bara upplýsa það hér að þegar þetta mál var tekið út úr ríkisstjórn fyrir áramót, ég átti þá sæti í þeirri ríkisstjórn, lýsti ég fullkominni andstöðu við frumvarpið. Ég taldi það vera lið í aðlögun íslensks stjórnkerfis og stofnanaumhverfis að Evrópusambandinu löngu áður en búið væri að taka ákvörðun um aðild, sem ég vona að verði ekki. En hins vegar kemur skýrt fram í tillögu til þingsályktunar sem fylgdi frumvarpinu að stuðningsaðgerðunum er ætlað að styðja við land til að uppfylla skilyrði Evrópusambandsins í aðlögunarferlinu.

Ég vil líka árétta, frú forseti, að Vinstri hreyfingin – grænt framboð ályktaði á flokksráðsfundi 20. nóvember 2010 að ekki yrði heldur tekið við styrkjum sem ættu beinlínis að undirbúa aðild að Evrópusambandinu. Er skýrt kveðið á um það fyrir utan andstöðu flokksins við aðildarumsóknina í heild en sérstaklega við (Forseti hringir.) þær styrkveitingar sem hér er verið að sækjast eftir. Hefur flokkurinn lýst sig algerlega andvígan þeim.

(Forseti (RR): Forseti beinir þeim tilmælum til hv. þingmanna að þeir virði tímamörk.)