140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, sem glöggur er, að styrkir þessir tengjast aðildarferlinu að Evrópusambandinu. Hvers vegna er það? Er það vegna þess að Evrópusambandið hafi tekið einhverja ákvörðun um slíkt ferli upp á sitt einsdæmi? Nei. Ástæðan fyrir því er sú að meiri hluti Alþingis Íslendinga hefur ákveðið að fara í slíkt ferli. Þess vegna er sá möguleiki nú uppi á borðinu að sams konar skattaívilnanir gildi gagnvart þessari alþjóðastarfsemi hér á landi og gagnvart ýmissi annarri starfsemi. Eða er hv. þingmaður almennt þeirrar skoðunar að starfsemi eins og bandaríski herinn rak á Keflavíkurflugvelli og skattaívilnanir breska sendiráðsins eða ýmissa annarra alþjóðastofnana, sem ég get betur tiltalið í síðara andsvari mínu, eigi almennt að fella niður eða á bara að fella niður þá meðferð gagnvart starfsemi Evrópusambandsins?