140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að margt sé athyglisvert við þetta mál. Í fyrsta lagi ef eitthvað er að marka, svo það sé bara sagt, yfirlýsingar forvígismanna ríkisstjórnarinnar sem hvað eftir annað hafa lýst því yfir að ekki sé um aðlögunarferli að ræða, það snúist ekki um að aðlaga íslenskar réttarreglur að stjórnsýsluregluverki Evrópusambandsins umfram það sem leiðir af skuldbindingu Íslands samkvæmt Evrópska efnahagssvæðinu — ef það er rétt þá er þetta mál bara misskilningur og hæstv. ríkisstjórn hlýtur því að draga málið til baka. Það segir sig sjálft því að ef marka má þessar yfirlýsingar virðist frumvarpið vera lagt fram á fölskum forsendum þar sem tilgangur þess er að greiða fyrir þróunaraðstoð sambandsins sem veitt er í þágu tilgreindra verkefna. Að baki þeirri aðstoð býr sú hugsun að auðvelda inngöngu og vinna aðildinni fylgi. Íslensk stjórnvöld skuldbinda sig á móti til að fella niður tilgreinda skatta og gjöld sem er stórundarlegt þegar höfð er í huga almenn tregða þeirra við að létta á skattbyrði almennra borgara og fyrirtækja þessa lands.

Ég og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson settum minnisblað frá utanríkisráðuneytinu með nefndaráliti okkar þar sem þessir styrkir eru tilgreindir og útskýrt út á hvað þeir ganga. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að menn kynni sér þetta minnisblað og hv. þingmenn fari í gegnum það.

Ekki er hægt að draga aðrar ályktanir af minnisblaðinu en þær að um sé að ræða hreina aðlögunarstyrki. Það er ekki hægt að draga neinar aðrar ályktanir. Ég hvet hv. formann nefndarinnar, Helga Hjörvar, en enn betra væri að forvígismenn ríkisstjórnarinnar kæmu hingað upp og útskýrðu fyrir okkur hvort er rétt. Ef þetta er aðlögunarferli er málinu sjálfhætt, það segir sig sjálft. Eða er það svo að í þessum aðildarviðræðum sé engin aðlögun, eins og hæstv. ráðherrar og þingmenn hafa sagt? Menn þurfa að ákveða sig hvort er rétt.

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að fara í gegnum þetta mál í þinginu nema um hreina og klára aðlögun sé að ræða. Það mundi breyta umræðunni nokkuð um þær aðildarviðræður ef það kæmi upp úr dúrnum að við séum að tala eftir allt saman um aðlögunarferli og allar yfirlýsingar forustumanna ríkisstjórnarinnar hafi verið byggðar á misskilningi. Ef menn skoða þessa landsáætlun IPA — og ég ætla að vitna í þetta minnisblað sem við fengum — geta menn ekki komist að annarri niðurstöðu en að hér sé um að ræða styrki að stórum hluta til að aðlaga okkur að aðild að Evrópusambandinu. Fyrsti styrkurinn sem er nefndur er:

„Uppbygging á NATURA 2000 samstarfsneti á Íslandi og innleiðing vistgerða- og fuglatilskipana ESB.

Viðtakandi aðstoðar: Náttúrufræðistofnun og Landmælingar.

Markmið verkefnisins er að styrkja getu Íslands til að greina og flokka dýra- og fuglategundir sem og vistgerðir sem vernda þarf í samstarfi við tilskipanir Evrópusambandsins. Keyptur verði tækjabúnaður að verðmæti 850.000 evra að undangengnu útboði sem framkvæmdastjórn ESB heldur utan um. Jafnframt verður beinn styrkur veittur að upphæð 2.835.000 evra til framkvæmdar verkefnisins, sem verður varið til ráðningar tímabundins starfsfólks og verktaka.

Heildarstyrkur: 3.685.000 evrur.“

Virðulegi forseti. Nú er það svo að við erum ekki aðilar að fuglatilskipun Evrópusambandsins. Hví skyldum við þurfa að flokka dýra- og fuglategundir og vistgerðir sem vernda þarf í samræmi við þá tilskipun? Ég vek athygli á því að ef við verðum aðilar að Evrópusambandinu og þurfum að taka upp þá tilskipun verður okkur ekki heimilt að veiða ref og ekki heimilt að veiða hval, svo dæmi séu tekin. Ákveðnir aðilar eins og æðabændur og hugsanlega fjárbændur sem hafa beinan skaða af heimskautarefnum gætu fengið leyfi til að vinna á refnum.

Hlunnindi eru ekki viðurkennd í fuglatilskipuninni sem undanþága fyrir veiðar því að veiðar eru almennt bannaðar, það eru ákveðnar undanþágur en hlunnindi eru ekki þar á meðal. Við erum því að tala um hefðbundnar veiðar á svartfugli, eggjatöku og annað slíkt sem væri þá bannað ef Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu. Það er augljóst að ef við göngum ekki inn í Evrópusambandið höfum við ekkert með þetta að gera, ekki neitt. Hví skyldum við fara að flokka dýra- og fuglategundir og vistgerðir sem vernda þarf í samræmi við fuglatilskipunina ef við ætlum ekki að ganga í Evrópusambandið? Til hvers ætti að kaupa dýran tækjabúnað og fara í fjárfestingu upp á 3,7 milljónir evra til að gera eitthvað sem við höfum nákvæmlega ekkert með að gera ef við göngum ekki í Evrópusambandið? Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg tilbúinn að trúa því að hæstv. ríkisstjórn ætli sér að skrökva því að hér sé ekki um aðlögunarferli að ræða. Ég vil fá skýringar hjá hæstv. ríkisstjórn á því hvað hér er á ferðinni því að þessi stóri styrkur er augljóslega aðlögunarstyrkur. Það er öllum ljóst sem lesa þetta.

Það sama má segja um annan styrk, uppbyggingu á rannsóknastofum og gæðakerfi vegna matvælaeftirlits. Þar er markmið verkefnisins „að bæta hæfni og getu Íslands til að uppfylla evrópska löggjöf á sviði matvælaöryggis“. Þar erum við að tala um 1,9 milljónir evrur.

Síðan er um að ræða þýðingar á ESB-gerðum, þjálfun túlka og stuðning við uppbyggingu á innviðum fyrir túlkanám við Háskóla Íslands.

Ef við göngum í Evrópusambandið þarf að vera um umtalsverða túlkun að ræða á hinum ýmsu tungumálum í Evrópu en við höfum ekkert við þetta að gera núna. Ég veit ekki til að það hafi hvarflað að nokkrum manni að með því að vera í EES hafi þurft að hefja slíkt túlkanám í háskólanum. Hefur einhver einhvern tíma heyrt það? Ef við förum ekki inn í Evrópusambandið höfum við væntanlega ekki þörf fyrir það eins og væri ef við værum í Evrópusambandinu. (ÁÞS: Ertu á móti menntun?) Hv. þingmaður og fyrrum starfsmaður Evrópusambandsins, Árni Þór Sigurðsson, (Gripið fram í: … starfsmaður…) kallar fram í og spyr hvort ég sé á móti menntun. (ÁÞS: … fara með rétt mál.) Hv. þingmaður segir að ég fari ekki með rétt mál, hann sé ekki starfsmaður Evrópusambandsins, hann var starfsmaður Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel á sínum tíma, fastafulltrúi, og þekkir þessi mál alveg gríðarlega vel og spyr úr sæti sínu hvort ég sé á móti menntun. Nei, ég er ekki á móti menntun. (ÁÞS: Gott.) Ég vildi fá svör við því af hverju ríkisstjórnin segir að við séum ekki í aðlögunarferli á meðan utanríkisráðuneytið dreifir minnisblaði í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þar sem augljóst er að um aðlögunarstyrki er að ræða. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er formaður utanríkismálanefndar og honum er í lófa lagið að upplýsa þetta (ÁÞS: Ég skal gera það á eftir.) og lofar því úr sæti sínu að gera það á eftir og í andsvari vonandi (Gripið fram í.) — en vill ekki koma í andsvar og þykir mér það miður því að hann hefði getað afgreitt þetta strax. Ef trúa má forustumönnum ríkisstjórnarinnar er um mikinn misskilning að ræða. Við erum þá að eyða tíma þingsins á síðustu dögum þess í mál sem við þurfum ekki að vera neitt að eyða tíma í ef það er byggt á grundvallarmisskilningi.

Virðulegi forseti. Það er síðan annað, frumvarpið eða þetta framferði hefur vakið hneykslan á Evrópuþinginu þar sem fram hafa komið sjónarmið um að óverjandi sé að veita þróunaraðstoð til Íslands með hliðsjón af almennri velmegun hér á landi og framgöngu Íslands í Icesave-málinu. Í fréttum Ríkisútvarpsins um málið kemur fram að stækkunarstjóri sambandsins hafi ekki fallist á að um þróunaraðstoð væri að ræða heldur „fjárhagsaðstoð til að undirbúa aðild að Evrópusambandinu“. Dæmi þá hver fyrir sig hvort aðlögunarferlið sé staðreynd. Ég bíð eftir svörum um það á eftir.

Hv. þm. Helgi Hjörvar fór mikinn áðan og sagði að þetta væri bara gott fyrir okkur, við værum að veita skattafslátt og fengjum fullt af peningum í staðinn. Það er áhugavert. Ég vildi sjá hv. þingmann og hæstv. ríkisstjórn koma hingað og segja: Heyrðu, nú skulum við liðka fyrir fjárfestingu í landinu, bæði innlendri og erlendri, við skulum ganga fram og lækka skatta til að fá fjárfestingu af stað. Ég hef ekki heyrt þær ræður. Hv. þingmaður segir að hér sé beint orsakasamhengi á milli og ég held að það sé alveg rétt hjá honum. En hv. þingmaður veit að þetta á við á öðrum sviðum líka. Og það er áhugavert að eina skiptið sem hæstv. ríkisstjórn er tilbúin til að ganga fram og lækka skatta til að fá fjármagn til landsins á það bara við um Evrópusambandið. Annars halda menn langar ræður um hversu skelfilegt það sé hvað skattar hafi verið lágir hér og hvað skattkerfið hafi verið einfalt, þetta sé allt hið skelfilegasta og allt skal gert til að skrúfa þetta upp, nema þegar ESB kemur og bankar og segir: Við viljum láta ykkur fá pening gegn því að hér verði sér skattareglur fyrir okkar fólk. Þá hlaupa menn til.

Við höfum styrkt Evrópusambandið mjög myndarlega. Þegar við gengum í Evrópska efnahagssvæðið áttum við að greiða — ég man það ekki nákvæmlega, mig minnir að það hafi verið í tvö ár frekar en fimm ár, fimm ár líklega, hvort það hafi ekki átt að falla niður árið 1999 — inn í Þróunarsjóð EFTA sem dreifðist á svæðin í Evrópusambandinu sem þóttu fátækari. Hvert erum við nú búin að greiða? Við erum búin að greiða til Grikklands, Írlands, Bretlands, Portúgals og Spánar. Síðan höfum við greitt til Búlgaríu, Rúmeníu, Kýpur, Tékklands, Eistlands, Ungverjalands, Lettlands, Litháens, Möltu, Póllands, Slóvakíu og Slóveníu. Þetta eru löndin sem við höfum styrkt.

Nú væri fróðlegt að vita hvort ríkisstjórnin hafi í sínum fjölmörgu ferðum og heimsóknum til Evrópusambandsins minnst á að það væri kannski eðlilegt að samningurinn mundi standa sem gerður var við Evrópusambandið. Og við í það minnsta mundum kannski ekki styrkja þau lönd sem augljóslega eru vel stæð. Ég tók það mál nokkrum sinnum upp þegar ég var formaður þingmannanefndar EFTA en fékk ekki mikil viðbrögð frá Evrópusambandinu. En núna kemur Evrópusambandið sjálft og segir: Við ætlum að gefa ykkur fullt af peningum ef þið bara komið og veitið okkur skattafslátt.

Það er þá ágætt að skoða í hvað þeir styrkirnir fara, sem ég held að ekki sé sanngjarnt að kalla aðlögunarstyrki því að það sem ég nefni hér eru klárir aðlögunarstyrkir. Samkvæmt minnisblaði frá utanríkisráðuneytinu er á landsáætluninni styrkur sem heitir, með leyfi forseta:

„Jarðvangur – þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæðið.

Viðtakandi aðstoðar: Háskólafélag Suðurlands.

Markmið verkefnisins er að þróa áætlun til eflingar atvinnu- og byggðaþróunar á Eyjafjallajökulssvæðinu. Sérstaklega horft til þess að nýta einstaka jarðsögu svæðisins til eflingar ferðaþjónustu á heilsársgrunni. Átak verður gert í fræðslu og kynningarmálum sem og stefnumótun og upplýsingagjöf fyrir svæðið í heild. Veittur er beinn styrkur að upphæð 560.000 evra en verkefninu er m.a. ætlað að veita innsýn í og styrkja þekkingu á regluverki Byggðaþróunarsjóðs Evrópusambandsins.“

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að vitna aftur beint í þetta: „að veita innsýn í og styrkja þekkingu á regluverki Byggðaþróunarsjóðs Evrópusambandsins.“ 560.000 evrur til að veita innsýn í regluverkið.

Ég hefði ekki trúað því að þessir styrkir væru eins og þeir eru nema af því að ég las þetta af minnisblaðinu. Við skulum bara tala um þessa hluti eins og þeir eru. Hér er verið að reyna að bæta ímynd Evrópusambandsins með fullt af peningum frá því. Hvað hefur Evrópusambandið, með fullri virðingu fyrir því, að gera með að þróa áætlun til eflingar atvinnu- og byggðaþróunar á Eyjafjallajökulssvæðinu? Erum við í Evrópusambandinu? Hefur Evrópusambandið ákveðið að taka okkur sem eitt af þeim löndum sem þeir ætla að veita sérstaklega þróunaraðstoð til? Er það þannig?

Það er svo augljóst að hér á að koma fram og segja: Heyrðu, það er svo gott að vera í Evrópusambandinu. Sjáið verkefnið sem Evrópusambandið er að styrkja.

Evrópusambandið sem hefur neitað að fara eftir samningi sem þeir gerðu við okkur þegar við gengum í EES. Þeir sögðu: Þið borgið samt, það skiptir engu máli hvað samningurinn heitir, skiptir engu hvað stendur honum. Þið borgið samt. Nú kemur Evrópusambandið og ætlar að fara að efla atvinnu- og byggðaþróun á Eyjafjallajökulssvæðinu. Þetta er ekki allt, virðulegi forseti.

Enn einn styrkurinn heitir:

„Menntun fyrir fleiri og betri störf. Víðtækar aðgerðir til að efla menntunarstig og atvinnu.

Viðtakandi aðstoðar: Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.

Markmið verkefnisins er að efla fullorðinsfræðslu fyrir fólk með litla eða enga formlega menntun og auka þar með möguleika þess á vinnumarkaði. Veittur er beinn styrkur m.a. til stefnumótunar, þarfagreininga og þróunar aðferða og tóla við vottun á þekkingu og hæfni starfsmanna.

Fræðslumiðstöðin ræður íslenska sérfræðinga til verkefnisins, sem er m.a. ætlað að veita innsýn í og styrkja þekkingu á regluverki Félagsmálasjóðs Evrópusambandsins.

Heildarstyrkur: 1.875.000 evrur.“

Til að veita innsýn í og styrkja þekkingu á regluverki Félagsmálasjóðs Evrópusambandsins. Þetta er sama Evrópusamband og er að hóta okkur viðskiptabanni út af makríldeilunni, þetta er sama Evrópusamband og er að stefna okkur út af Icesave, þetta er sama Evrópusamband og sagt hefur við okkur frá 1999: Okkur er alveg nákvæmlega sama hvað stendur í þeim samningi sem við skrifuðum undir. Þið borgið samt. Og það ætlar núna að veifa og dreifa peningum um allar koppagrundir.

Hæstv. ríkisstjórn er tilbúin til að brjóta öll sín prinsipp og veita skattafslætti alveg eins og þeir mest mega til að hægt sé að taka við Evrópusambandsgullinu. Ég ætla að halda áfram og lesa upp enn einn styrkinn. Hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Tæknilegur stuðningur við NIPAC-skrifstofuna og óráðstafað fé.

Viðtakandi aðstoðar: Utanríkisráðuneytið.

Evrópusambandið veitir enga beina styrki til reksturs NIPAC-skrifstofunnar í utanríkisráðuneytinu en gert er ráð fyrir að hægt verði að bjóða út ýmsa þjónustu sem tengist utanumhaldi með IPA-styrkjunum hér á landi. Meðal verkefna sem skilgreind hafa verið eru kaup á aðstoð við umsækjendur, fýsileikakannanir, eftirlit með framvindu verkefna, ráðgjöf varðandi stefnumótun, upplýsingagjöf o.fl. Hluti þessa fjár er ætlaður til að styðja einstaka landshluta í tengslum við möguleg verkefni.“

Ég heyrði í andsvari áðan að hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að sjálft Evrópusambandið væri þeirrar skoðunar að þetta væri frekar veikt hjá okkur í ýmsum byggðum landsins. Evrópusambandið ætlar að koma og bæta úr því. Ef þeir ná sínu fram, sjálft Evrópusambandið, þá veitir ekki af því að styrkja alla íslenska byggð, ef þeir ná sínum ýtrustu kröfum fram í framgangi sínum gagnvart Íslandi en það er annað mál.

Hér er íslenska utanríkisráðuneytið að fá styrk frá Evrópusambandinu til að styðja einstaka landshluta í tengslum við möguleg verkefni.

Menn koma og tala eins og það sé hið stórkostlegasta mál að fá peninga frá Evrópusambandinu, spurning hvort þetta sé endurgreiðsla fyrir samninga sem þeir neituðu að standa við og píndu okkur til að greiða áfram. Ég sá nú ekki baráttuhugann í hv. þingmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna fyrir því að Evrópusambandið færi eftir þeim samningum sem það gerði við okkur, en ég sé hins vegar mikinn baráttuhug hér hjá hv. þingmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna þegar kemur að þessu máli, þegar kemur að því að hliðra til í skattalegu tilliti svo að aðlögunarferlisstyrkir Evrópusambandsins nái í gegn og síðan hreinir styrkir sem ekki gera neitt annað en að bæta ímynd Evrópusambandsins.

Mér finnst það ekki sannfærandi ef Evrópusambandinu er svo mikið í mun að bæta stöðu Íslands fjárhagslega að taka út einstaka þætti á landsbyggðinni. Þá væri nær, ef raunverulegur hugur fylgdi máli, að þeir færu eftir þeim samningum sem þeir skrifuðu undir við okkur og/eða mundu ekki reyna allt hvað þeir geta til að knésetja okkur í þeim erfiðu deilumálum sem við höfum átt í. Ég hvet hv. þingmenn til að skoða söguna í því sambandi, sögu samskipta Evrópusambandsins og Íslands í tengslum við Icesave-málið, sem er til komin út af stórgallaðri tilskipun Evrópusambandsins eins og allir vita. (Gripið fram í.) Nú heyrði ég ekki hvað hv. þm. Árni Þór Sigurðsson muldraði en ég efast ekki um að það hafi verið gott og uppbyggilegt og ég fæ væntanlega að heyra það á eftir.

Það skiptir engu máli, virðulegi forseti, því að slík er gleðin í tengslum við þetta mál, slíkur er ákafinn við að lækka skatta á ESB-verktaka að þrátt fyrir að Félag löggiltra endurskoðenda komi með mjög málefnalegar athugasemdir við þetta mál og hafi áhyggjur af því að óskýrleiki sé í lögunum, hafi áhyggjur af samkeppnisstöðu þeirra aðila sem veita sambærilega þjónustu við ESB-verktaka og ýmislegt annað, þá dvelja menn hér ekki neitt við það eða hafa áhyggjur af því. Þó að ég sé ekki sérfræðingur þá veit ég hvað endurskoðendur gera. Þeir eru mestu sérfræðingar landsins í skattareglum. Ef þeim finnst skattareglur vera óskýrar mundi ég leggja við hlustir. Ég held að í flestum tilfellum hafi menn gengið þannig fram að þetta væri skýrt fyrir alla, en ef þetta er óskýrt fyrir endurskoðendurna er það væntanlega óskýrt fyrir aðra þá aðila sem ekki eru með slíka menntun. Hvernig menn hafa afgreitt þau mál sýnir hins vegar ákafann í því að koma þessu máli í gegn og kynni einhver að segja að menn hefðu viljað sjá ákafann hjá ríkisstjórninni í öðrum málum. Einhver kynni að nefna skuldamál heimila og fyrirtækja, koma atvinnulífinu af stað o.s.frv. En vegna þess að við erum að tala um mál sem snúa að Evrópusambandinu þá held ég að menn hefðu viljað sjá slíkan ákafa þegar verið er að gæta hagsmuna Íslands í samskiptum við Evrópusambandið. Ég sá engan ákafa þar, hvorki ákafa né áhuga.

Það var áhugavert að hlusta á fyrirspurn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til hæstv. innanríkisráðherra í dag. Þá rifjaðist það upp þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrím J. Sigfússon, hver staðan væri í Icesave-málinu. Hæstv. ráðherra sagði að um könnunarviðræður væri að ræða, það væri ekkert að gerast, menn væru að þreifa hver á öðrum. Þetta var á miðvikudegi. Könnunarviðræður, það mundi koma til kasta þingsins áður en eitthvað gerðist í því máli.

Könnunarviðræðunum var lokið með samningi á föstudegi sem skrifað var undir seinni partinn í sömu viku. Í millitíðinni ef marka má það — ekki skrökvar hæstv. forsætisráðherra — hafði hæstv. forsætisráðherra lesið samninginn sem hv. þingmenn áttu síðan ekki að fá að sjá. Ég hefði nú viljað sjá — af því að nú er ljóst að við eigum í höggi við Evrópusambandið í því máli sem er auðvitað ákveðin frétt vegna þess að talað var með allt öðrum hætti en það er nú orðið skýrt — að minnsta kosti helminginn af ákafanum og gleðinni við það að berjast fyrir hagsmunum Íslands eins og kemur fram í þessu máli.

Hér er um að ræða mál sem kallar á margar spurningar. Ég vil fá að vita af hverju verið er að hliðra til fyrir aðlögunarferlisstyrkjum. Er það svo að menn hafi ekki sagt satt og rétt frá um þau mál?