140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er óvenjulegt að heyra hv. þingmann mæla gegn gjaldeyrisöflun og atvinnusköpun og lækkun skatta í ræðustól Alþingis en það helgast trúlega af viðhorfi hans til Evrópusambandsins öðru fremur. Við sem látum það viðhorf ekki trufla okkur í málinu og gerum bara kalt hagsmunamat hljótum að leggja áherslu á það að þau verkefni sem hér er verið að styðja eru Íslandi góð verkefni. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga það jafneinarðlega fram og hann gerði í því þegar hann lýsti því hversu mikil og jákvæð ímyndaráhrif þau mundu hafa fyrir Evrópusambandið, því að verkefni sem hafa jákvæð ímyndaráhrif fyrir Evrópusambandið eru auðvitað Íslandi til framdráttar.

Það gætti hins vegar nokkurs misskilnings varðandi styrki til þeirra verkefna sem hv. þingmaður kallað aðlögunarverkefni, þ.e. um vistgerðarkort og fuglafar annars vegar og matvælaeftirlit hins vegar, að þau verkefni kæmu okkur að engu gagni ef við yrðum ekki aðilar að Evrópusambandinu. Því fer fjarri.

Vistgerðarkort eru meðal annars gamalkunnugt vandamál í þinginu, það þekki ég sem fyrrverandi formaður umhverfisnefndar Alþingis. Skortur á þeim hefur valdið því að umhverfismat í tengslum við fjölmargar framkvæmdir og atvinnusköpun í landinu hefur tafist óþarflega mikið vegna þess að grunnrannsóknir liggja ekki fyrir. Þess vegna mun gerð vistgerðarkorta nýtast okkur um alla framtíð alveg óháð aðild að Evrópusambandinu því að við framkvæmum jú umhverfismat.

Hvað varðar aukið gæðastarf í matvælaeftirliti er rétt að hafa það í huga að við flytjum matvæli okkar fyrst og fremst á hinn evrópska markað, til Englands, Þýskalands og Frakklands, og að þróa hér áfram matvælaeftirlit sem byggir á sömu stöðlum og menn gera á mörkuðum okkar hygg ég að verði að verulegu leyti starf sem nýtist hvort sem af aðild okkar að Evrópusambandinu verður eða ekki.