140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er tvennt sem ég velti fyrir mér: Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hv. þingmann út í það sem aðeins var rætt áðan, þ.e. þau sinnaskipti sem virðast hafa orðið hjá þingmönnum Vinstri grænna gagnvart þessum IPA-styrkjum. Þá er ég aðallega að vitna til þess að því hefur verið haldið fram að andstaða hafi verið við styrkina innan raða Vinstri grænna. Sagt er að síðasti landsfundur hafi gert svolítið úr þessu máli, að andstaða við IPA-styrkina hafi komið fram í umræðum á landsfundinum, og vitna ég þar í ræðu þingmanna Vinstri grænna í þingsal, og að landsfundur hafi ályktað í þá veru. Það er því þess virði að velta því upp hvað orðið hafi til þess að þessi sinnaskipti urðu innan raða Vinstri grænna. Getur hv. þingmaður upplýst mig um það út frá setu sinni í þeim flokki?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í það þegar svokölluð Evrópustofa var boðin út eða uppsetning á því apparati öllu saman. Það kemur jafnvel fram í útboðsgögnum að það sé hluti af þessu IPA-styrkjadæmi. Þá veltir maður líka fyrir sér: Ef IPA-styrkirnir eru hugsaðir til að auðvelda ríkjum að aðlagast Evrópusambandinu eða sem þróunaraðstoð, eins og hv. þingmaður segir réttilega, er þá eðlilegt að reka hér áróðursskrifstofu fyrir Evrópusambandið undir heitinu Evrópustofa fyrir einhverja þróunaraðstoðarstyrki? Ég fæ ekki skilið þessi gögn öðruvísi en svo og hefur áður komið fram í þingræðum að IPA-styrkir séu meðal annars ætlaðir til að fjármagna þessa Evrópustofu, (Forseti hringir.) sem er vitanlega allt annað en hlutlaus aðili.