140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:38]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart að nota eigi þessa IPA-styrki til að fjármagna svokallaða upplýsingaskrifstofu vegna þess að mér skildist að þetta væru fyrst og fremst styrkir til að styrkja efnahagslega og félagslega þróun. Ég get ekki séð að það sé nein þörf á því að efla meðvitund Íslendinga um Evrópusambandið sem slíkt. Það er hægt að taka námskeið í Evrópusambandssamrunanum í öllum háskólum landsins og jafnvel í nokkrum menntaskólum. Þau námskeið voru í boði fyrir ESB-umsóknina.

Ég get því miður ekki upplýst hv. þingmann um hver afstaða þingflokks Vinstri grænna til IPA-styrkjanna er, enda hefur ýmislegt breyst frá því að ég yfirgaf þingflokkinn eins og til dæmis framlenging ESB-umsóknarferilsins. En það hefur alltaf legið ljóst fyrir að ég ætlaði að sitja hjá við afgreiðslu mála sem tengdust þessum IPA-styrkjum, ég hef gert það fram til þessa. Um leið og fram komu þær upplýsingar sem ég tíundaði í ræðu minni um eðli þessara styrkja og hvernig þeir skekktu samkeppnisstöðu innlendra aðila sá ég ekki ástæðu til að þiggja þá. Reyndar finnst mér það ekki samboðið sjálfsvirðingu okkar að þiggja þróunaraðstoð frá sambandi þar sem þjóðartekjur eru að meðaltali lægri en á Íslandi.