140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[16:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og skil hana þannig, út frá þeim upplýsingum sem fram komu í efnahags- og viðskiptanefnd og þeim umræðum sem þar fóru fram, að hún telji ekki rétt að samþykkja þessar heimildir, þau frumvörp og þá þingsályktunartillögu sem hér liggja frammi. Ég fagna því að það skuli liggja fyrir því að það er mjög mikilvægt að við áttum okkur öll á hvað er á ferðinni.

Það er hreint og beint galið að Alþingi ætli ef til vill að taka meðvitaða ákvörðun um að skapa einhverja mismunun gagnvart íslenskum aðilum til þess eins að koma á fót einhvers konar systemi sem er til þess fallið nánast að deila út perlum og gulli til að Íslendingar verði áhugasamari um Evrópusambandið.

Varðandi starfsemi Evrópustofu kemur fram í lýsingu á henni að ýmsar flökkusögur séu sagðar um Evrópusambandið en að fæstar þeirra eigi sér stoð í veruleikanum. Hafa skal það sem sannara reynist og Evrópustofu er einmitt ætlað að miðla staðreyndum. Ég velti fyrir mér hvort sú hringferð sem farin var á vegum Evrópustofu með sendimann Evrópusambandsins á Íslandi, Timo Summa, víða um landið hafi verið til þess fallin að miðla staðreyndum um sambandið. Hefur hv. þingmaður hafi einhverjar efasemdir um það?

Þá vil ég líka spyrja hv. þingmann um upplifun hennar af samningaviðræðunum og aðlögunina því að fyrir nokkru var gefinn út bæklingur hjá Evrópusambandinu sem heitir á ensku Understanding Enlargement. The European Union’s Enlargement Policy, þar sem fram kemur að orðið samningaviðræður geti verið villandi. Samningaviðræður snúast um skilyrði o.s.frv. en þarna (Forseti hringir.) sé í raun um aðlögun að ræða.