140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fyrri hluta þessa máls sem eru IPA-styrkirnir sem hafa nokkrum sinnum komið upp í umræðum á Alþingi um þá Evrópusambandsumsókn sem er í gangi, sem er vitanlega ekkert annað en aðlögun að Evrópusambandinu og kemur fram í ýmsum gögnum að svo er.

Sá hluti sem við fjöllum um núna er fyrst og fremst lagafrumvarpið sem þarf að koma fyrir þingið til að hægt sé að taka við þessum styrkjum. Lagafrumvarpið hefur verið gagnrýnt mikið, m.a. vegna þess að það er talið mismuna innlendum og erlendum aðilum að mati sumra, og eins og gengur reyna þeir sem eru fylgjandi Evrópusambandsumsókninni að verja þetta mál með kjafti og klóm, a.m.k. þeir sem leiða það mál. Það vekur hins vegar eftirtekt hversu eindregið og ákaft Vinstri grænir virðast vilja að þetta IPA-mál fari í gegnum þingið og styðja það greinilega af heilum hug í nefndum. Ég sé að tveir þingmenn Vinstri grænna skrifa undir nefndarálit meiri hlutans, það eru hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir og Þuríður Backman. Það verður því ekki skilið öðruvísi en svo að mikill einhugur sé um þetta mál innan Vinstri grænna þar sem flokkurinn virðist fylkja sér á bak við málið, og það kemur kannski ekki alveg á óvart, frú forseti, því að við munum að þegar fjárlagafrumvarpið var samþykkt í þinginu stóðu þingmenn Vinstri grænna allir sem einn, að mig minnir, að samþykkt þess frumvarps þannig að hinn mikli einhugur á bak við Evrópusambandsumsóknina þarf ekki að koma á óvart. Það kann hins vegar að vera að einhvers staðar hafi orðið einhver misskilningur hjá þessum ágætu þingmönnum.

Í minnihlutaáliti um frumvarpið koma fram ýmsar athugasemdir við þetta mál og einnig fylgir listi yfir verkefni sem eiga að njóta þessara styrkja. Ég verð að segja eins og er að sumt af þessum verkefnum er vitanlega eitthvað sem við Íslendingar hefðum átt að sjá sóma okkar í að fara í og gera á okkar reikning í stað þess að teikna upp eitthvert prógramm fyrir Evrópusambandið til að fá aura inn í það. Hér eru líka verkefni sem mér finnst svolítið sérstök og snúa ekki á nokkurn hátt að þessari umsókn en eru augljóslega til þess fallin að afla fylgis við þetta ferli og má þar nefna Kötlu jarðvang, þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæðið. Þetta er mjög merkilegt og gaman að menn hafa slíkar hugmyndir uppi en að það komi aurar í þetta í gegnum þessa IPA-áætlun þykir mér býsna sérstakt.

Við höfum gagnrýnt það mjög lengi, margir þingmenn, að þetta ferli sé í því fari sem það er. Það kom til dæmis í ljós í ræðu hv. þm. Lilju Mósesdóttur að þingmaðurinn lítur ekki sömu augum ferlið sem er í gangi í dag og það sem var í gangi á sínum tíma þegar þingmaðurinn greiddi götu þessarar umsóknar í þinginu, hún var reyndar þá í þingflokki Vinstri grænna og hefur greinilega losnað undan þeim hæl sem þar er á þingmönnum um að fylgja þessu máli til enda. Það kom fram að þingmaðurinn telur að þetta ferli sé annað en það sem farið var af stað með og leyfi ég mér þar af leiðandi að lesa það út úr orðum hennar að hún hefði ekki stutt málið, ef það hefði komið fram í dag, vitandi að um þetta ferli væri að ræða en ekki samningaviðræður eins og þegar Norðmenn voru í þessum viðræðum.

Það er nefnilega mikilvægt, frú forseti, að halda því til haga að Evrópusambandið breytti um takt ef má orða það svo. Það breytti í raun sinni nálgun eftir að Noregur felldi aðild að Evrópusambandinu í kringum 1994 og tók í staðinn upp aðlögunarferli sem þessir IPA-styrkir eru augljóslega hluti af. Til að skýra þetta betur gaf Evrópusambandið út bækling — ég held að það hafi verið 2010 sem þessi bæklingur er kom út, það breytir kannski ekki öllu — og þar er saga Evrópusambandsins rakin stutt og síðan farið yfir ferlið hvernig Evrópusambandið stækkar og hvernig það verður til, enda heitir bæklingurinn Stækkunarferlið skilið eða Understanding enlargement.

Það kemur fram í innganginum að þessum bæklingi um hvers konar gæðabandalag Evrópusambandið er, þar er meðal annars talað um að það hafi fært Evrópubúum stöðugleika, velmegun, lýðræði. Ekki veit ég hvort allir skrifa upp á að þar sé akkúrat stöðugleiki, það er jú stöðugleiki þegar horft er til baka hvað varðar styrjaldir sem voru innan Evrópu fyrir nokkuð mörgum árum. Ef það er sá stöðugleiki, þá er það rétt, en velmegunin, það fer eftir því hvort menn tala við Þjóðverja, Spánverja eða einhverja aðra íbúa Evrópusambandsins hversu mikil velmegunin er. Og lýðræðið, um það hafa verið skrifaðar greinar og skýrslur að eitt af því sem hái Evrópusambandinu sé lýðræðishallinn þannig að það þarf líklega að endurskoða þennan bækling eitthvað, frú forseti. Mannréttindi eru nefnd og þar held ég að Evrópusambandinu hafi tekist mjög vel til og þar höfum við Íslendingar að sjálfsögðu líka tekið fullan þátt og axlað ábyrgð. Síðan er sitthvað fleira nefnt en þetta eru svona helstu punktarnir.

Síðan kemur að því að útskýra fyrir þeim er lesa þennan bækling í hverju þetta ferli felst. Í fyrsta lagi er tekið fram og stendur hér, með leyfi forseta, í lauslegri þýðingu, að það sé mikilvægt að undirstrika að orðið samningaviðræður geti verið villandi, þetta snúist í rauninni um það að verið sé að hjálpa þeim sem eiga í viðræðum við Evrópusambandið að aðlaga reglur og þá bálka, eins og fram kemur hér, sem hafa þegar verið samþykktir innan Evrópusambandsins og eru ekki umsemjanlegir, stendur í lok þessarar setningar. Það kemur fram hér að þetta er ekki umsemjanlegt og þar af leiðandi er verið að aðlaga ríkin að þeim lagabálkum sem samþykktir hafa verið og þeim sé veittur einhver tími til að ná fram fullri aðlögun o.s.frv.

Það kemur líka fram hér, frú forseti, að Evrópusambandið leggi mikið upp úr því að þetta gangi allt snurðulaust fyrir sig, þ.e. að ferlið sem ríkin fara í þegar þau óska eftir aðlögun að Evrópusambandinu gangi samkvæmt ákveðnu ferli. Hluti af því ferli eru IPA-styrkirnir. Þeir eru hugsaðir til að hjálpa ríkjum sem eiga í einhverju brasi með að aðlaga sig eða til að breyta stjórnsýslu o.s.frv. til að falla að því sem Evrópusambandið hefur þegar samþykkt, þessir styrkir eiga að fara í slík verkefni. En samkvæmt fylgiskjalinu með minnihlutaálitinu er nokkuð langsótt að sjá að verkefnin sem þar eru talin falli beint undir þetta. Verkefnin eru samt sem áður góðra gjalda verð og slæmt að ekki hafi verið fært að fara í þau óháð þessu brölti til Evrópusambandsins. En það er svo sem ekki útséð með að af því geti orðið þó svo að við hættum við allt þetta ferli, sem ég vona að verði sem allra, allra fyrst.

Bæklingurinn sem ég nefndi áðan kemur meðal annars inn á hjálp sem Evrópusambandið veitir og heitir kaflinn um það, með leyfi forseta: „Að hjálpa umsóknarríkjum að undirbúa þátttöku.“ Þar er talað um hvernig það allt gengur fyrir sig. Þetta er mjög athyglisvert og vil ég hvetja þingmenn til að kynna sér bæklinginn, það kann að opna augu margra fyrir því hvernig ferlið er í raun og veru.

Ég nefndi áðan í andsvari við hv. þm. Lilju Mósesdóttur að í útboðsgögnum fyrir upplýsinga- og samskiptaþjónustu, sem úr varð þessi Evrópustofa, kemur fram að hún er fjármögnuð af IPA-styrkjum. Það hefur sjálfsagt alltaf verið gert þannig en þá held ég að væri rétt að skýra þessa stofnun rétt. Hún er vitanlega fyrst og fremst málpípa Evrópusambandsins til að koma sjónarmiðum þess á framfæri, enda kemur það fram á heimasíðunni hvert verkefnið er og ekki verið að fara neitt í grafgötur með það. Ég vona að sjálfsögðu að það gangi vel hjá þeim en það er mikilvægt að hafa hlutina eins og þeir eru.

Ég rakst áðan á fréttatilkynningu frá kommissjóninni í Brussel um fund Stefans Füles stækkunarstjóra og utanríkisráðherra Íslands, sem er þar greinilega á ferð, þar sem farið er yfir hvernig gangi í þessum viðræðum og hvað búið sé að fara yfir marga samningskafla og hve margir séu eftir og í fréttatilkynningunni kemur fram að nú fari hugsanlega að sverfa til stáls út af einhverjum köflum. Það vekur hins vegar athygli mína að miðað við þessa fréttatilkynningu, svo ég haldi henni til haga, hafa ekki verið rædd þau miklu deilumál sem eru milli Íslands og Evrópusambandsins þessa dagana. Við skulum samt ekki útiloka að það hafi verið gert svo allrar sanngirni sé gætt, því að þetta er vitanlega rétt tilkynning frá kommissjóninni sem sendir þetta út. En auðvitað hefði maður viljað sjá fréttatilkynningu þar sem upplýst væri um samtöl utanríkisráðherra Íslands og stækkunarstjórans út af markríldeilunni, út af þeirri fásinnu að þeir blandi sér í Icesave-málið og svo mætti áfram telja. Það kann vel að vera að það hafi verið gert en það sést ekki hér.

Því hefur verið haldið á lofti að þessir IPA-styrkir séu svo frábærir og við ættum endilega að þiggja sem mest af þeim því að við þyrftum hvort sem er ekki að endurgreiða þá. Það er örugglega alveg hárrétt að við þurfum ekki að endurgreiða þessa styrki en það eru mjög sérstök rök að þar af leiðandi eigi bara að þiggja þegjandi og hljóðalaust þá aura sem að okkur eru réttir til að hraða aðlögun Íslands að Evrópusambandinu. Það er líka mjög sérstakt að menn skuli ekki endurskoða þá afstöðu sína, vísa ég þar sérstaklega til þingflokks Vinstri grænna þar sem þeir hafa haft mörg tækifæri núna til að koma fram og sýna hver er raunveruleg skoðun þeirra á þessu ferli. Ég reikna fastlega með því, frú forseti, að skömmu fyrir kosningar muni Vinstri grænir koma fram og segja að þetta hafi allt verið misskilningur, þeir hafi haldið að þetta væri allt öðruvísi. En það er eitthvað sem er nú bara spádómur.

Þetta eru miklir peningar sem þarna er um að ræða, það er alveg ljóst, nokkrir milljarðar. — Hv. þingmaður sem gekk hér fram hjá púltinu og var eins og hvíslari við púltið setti mig aðeins út af laginu, ég þurfti alltaf í gamla daga í leikhúsinu að hlusta eftir hvíslaranum en þegar hann kemur svona óvænt fer maður aðeins út af sporinu. — En um var að ræða athugasemd við þessa aura alla sem sumir segja að sé gott og rétt að þiggja. (Gripið fram í.) Já, það er rétt, hv. þingmaður, sem kallar fram hér fram í, að þeir voru samþykktir í fjárlögum og sum okkar bentu á að það ætti eftir að ganga frá ýmsu varðandi þennan lið fjárlaganna. Ég velti þá fyrir mér: Hvernig verður tekið á því ef þetta frumvarp og þingsályktunartillagan fer ekki í gegnum þingið, segjum að hún verði felld í þinginu, hafa menn gert einhverjar ráðstafanir til að bregðast við röngum fjárlögum sem voru væntanlega (Gripið fram í: Og samningurinn fellur.) samþykkt af einhverjum misskilningi í besta falli?

Frú forseti. IPA-styrkirnir eru hluti af því aðlögunarferli sem Ísland er í gagnvart Evrópusambandinu. Þeir hljóta að verða ræddir í þeirri stóru mynd sem er til staðar sem er þetta ferli allt saman. Ýmsar vangaveltur eru uppi um hvort Alþingi eigi að endurskoða þá ályktun sem samþykkt var í þinginu og ég tek heils hugar undir að það sé mikilvægt að gera. Við höfum tekið nokkrar umræður í þingsal um þetta ferli en ekki tekið þá umræðu sem þarf að taka, þ.e. hvort kominn sé tími til að staldra við og endurmeta stöðuna á einhvern hátt. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um slíkt. Það hafa komið fram hugmyndir um að leggja umsóknina til hliðar, fresta málinu og leyfa þjóðinni að kjósa um hvort eigi að fara af stað aftur. Það er ágætistillaga. Komið hefur fram tillaga um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í haust um það að þjóðin fái að segja álit sitt í því hvort eigi að halda þessu áfram eða ekki. Ég tel að það sé líka mjög góð tillaga. Vangaveltur eru um það hjá einstökum þingmönnum og jafnvel ráðherrum Vinstri grænna að afgreiða þurfi málið fyrir kosningar. Telji menn að það sé mögulegt og það sé vilji þeirra þarf að sjálfsögðu að fylgja eftir slíku tali. Þegar ráðherra setur fram þá hugmynd að klára málið með einhverjum hætti er eðlilegt að sá ráðherra fylgi því eftir.

Frú forseti. Málið er á fullri ferð, þ.e. aðlögun að Evrópusambandinu. Við ræðum hér einn lítinn hluta þess máls sem eru IPA-styrkirnir. Margt á eftir að ræða í þinginu. Það er alveg ljóst að frá því að þessi ferð var hafin hafa sumir stjórnmálaflokkar endurskoðað afstöðu sína til málsins og komið fram með mjög skýra stefnu þar um. Það er hins vegar mjög undarlegt þegar annar stjórnarflokkurinn segir að hann áskildi sér rétt til að vera á móti ferlinu en er svo sá flokkur sem heldur í rauninni lífinu í ferlinu. Það hlýtur að vera mjög ótrúverðugt að hlusta á slíkt og taka mark á yfirlýsingum Vinstri grænna þegar þannig er í pottinn búið.

Við munum halda áfram að ræða þetta mál. Ég hef farið yfir ákveðna hluti er snúa að umgjörðinni og hvernig ég tel þetta mál vaxið. Ég mun hins vegar í seinni ræðu fara yfir einstakar greinar og lesa þær með tilliti þess fyrir hvert innihald þessa máls er, hvert við erum að fara með því og að það er hreinn og klár hluti af þeirri aðlögun sem í gangi er.