140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[17:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur aldrei séð þann er hér stendur trylltan, ekki einu sinni séð hann reiðan, þannig að ég veit ekki hvað hv. þingmaður er að fara með þessu.

Ég vil hins vegar segja við hv. þingmann að þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri orðið uppbyggingarstyrki notað um IPA-styrkina. Ég veit ekki til þess að þeir séu flokkaðir sem slíkir, sem sérstakir uppbyggingarstyrkir. Við hljótum líka að spyrja okkur, af því að hv. þingmaður nefndi kjarna málsins: Hver er kjarni málsins? Af hverju standa þessir styrkir núna til boða atvinnuþróunarfélögum eða fyrirtækjum eða öðrum? Það er vegna þess að við erum í göngu til Evrópu, við erum í aðlögun að Evrópusambandinu, þess vegna standa þeir til boða. Þeir standa ekki til boða vegna þess að Evrópusambandinu sé svona hlýtt til íslenskra byggðarlaga eða vegna þess að Evrópusambandið hugsi svo fallega til Íslands eða Íslendinga. Það er vegna þess að Evrópusambandið er að vinna að því að Ísland verði reiðubúið og tilbúið til að ganga í sambandið þegar aðlögun er lokið. Þetta er ekki flóknara en það.

Evrópusambandið þarf að kosta milljörðum króna til að afla fylgis, til að fá nógu góða umsögn, til að fá nógu gott andrúmsloft á Íslandi áður en kemur að því að greiða atkvæði, ef einhvern tíma kemur að því, um hvort menn vilji ganga í þennan klúbb eða ekki. Þetta er ekkert flóknara en það. Við hefðum aldrei fengið þessar krónur eða þessar evrur frá Evrópusambandinu ef við værum ekki í þessu ferli.

Við eigum hins vegar kost á því og höfum átt kost á því mjög lengi að kaupa okkur inn í ýmis verkefni og ýmsar áætlanir og vera þar með Evrópuþjóðum. Það eigum við að sjálfsögðu að gera áfram þó að við göngum ekki í Evrópusambandið. Því hefur enginn mótmælt, vegna þess að þar leggjum við eitthvað á móti, við leggjum eitthvað á okkur þar. Það er ekkert að því. Við höfum tekið þátt í alls konar verkefnum og eigum að halda því áfram. En að þiggja einhverja styrki sem eru núna í boði vegna þess að Evrópusambandið þarf á því að halda finnst mér mjög sérstakt. Og ég ítreka það sem ég sagði áðan, frú forseti, að það er náttúrlega alveg dæmalaust að tala um (Forseti hringir.) að þessi sveitarfélög eigi svo erfitt, á sama tíma og verið er að ganga að sveitarfélögunum hringinn í kringum landið.