140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[18:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vegna þess sem fram kom hjá hv. þingmanni í upphafi. Ég er sammála því að auðvitað bera stjórnvöld ábyrgð á því að klára þau verkefni sem farin eru af stað, stjórnvöld og þar með íslenskir skattgreiðendur. Ég held að mikilvægt sé að það liggi fyrir að færi það svo að samningurinn næði ekki fram að ganga bitni það ekki á þeim sem sækja um í góðri trú, heldur verði það leyst með öðrum hætti.

Síðari spurningu hv. þingmanns var hvort ég telji IPA-verkefnin vera sambærileg öðrum verkefnum sem við erum þátttakendur í. Ég fór yfir það í ræðu minni áðan að við höfum einmitt marga möguleika og margvísleg tækifæri til að taka þátt í Evrópusamstarfinu þar sem við erum aðilar að. Og ég held — alveg nákvæmlega eins og við hér á þinginu gætum gert betur í að tryggja íslenska hagsmuni á upphafsstigum þeirra gerða sem við tökum svo til við að fjalla um á síðari stigum — að íslensk fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld hafi alveg örugglega meiri og betri tækifæri til að afla fjár úr sameiginlegum sjóðum sem við greiðum inn í sem þátttakendur á Evrópska efnahagssvæðinu. Auðvitað eigum við að vera fullgildir þátttakendur þar. Við erum fullgildir aðilar að þeim samningi með öllum þeim kostum og göllum. Við erum hins vegar ekki aðilar að Evrópusambandinu og mörg okkar og stór hluti þjóðarinnar, mikill meiri hluti þjóðarinnar, vill ekki verða aðili að Evrópusambandinu. Þess vegna tel ég að það sé óeðlilegt og rangt að við séum, áður en sú ákvörðun er tekin, að samþykkja og taka á móti styrkjum úr sjóðum sem þessum sem eru beinlínis tilkomnir vegna aðildarumsóknarinnar að Evrópusambandinu.