140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um frávik frá lögum um skatta og gjöld vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins. Málið felst í því að ekki verði innheimtir skattar af svokölluðum IPA-styrkjum á Íslandi.

Í 12. gr. samnings sem ríkisstjórn Íslands undirritaði 8. júlí 2011, við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland segir að íslensk stjórnvöld skuldbindi sig til þess að undanþiggja IPA-styrki hvers kyns opinberum álögum og er þetta frumvarp lagt fram í þeim tilgangi.

Ég ætla fyrst að fara aðeins yfir hvað IPA-styrkir eru. IPA er skammstöfun fyrir það sem kallast upp á enska tungu „Instrument for Pre-Accession Assistance“. Það er ekki nákvæm þýðing að kalla þetta styrki úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins heldur væri betra að segja að þetta væru þau verkfæri sem Evrópusambandið hefði til að aðstoða ríki við aðlögun að Evrópusambandinu. Ég held að það nái betur inntakinu í þessu, en hvað um það.

Áætlað er að núna á nokkrum árum muni Evrópusambandið setja í kringum 5 milljarða í þessa styrki til Íslands og er kominn listi yfir landsáætlun IPA. Þar eru nokkur verkefni og öllsömul eru þau gagnmerk. Fyrsta verkefnið á listanum sem utanríkisráðuneytið sendi frá sér er uppbygging á svokölluðu Natura 2000 samstarfsneti á Íslandi, innleiðing vistgerða- og fuglatilskipunar ESB. Þar segir að markmið verkefnisins sé að styrkja getu Íslands til að greina og flokka dýra- og fuglategundir. Í það eru lagðar 3.685 þús. evrur sem eru rúmlega 500 millj. kr. Til þess að auðvelda Íslandi að aðlaga sig að Evrópusambandinu ætlar sambandið því að setja rúmar 500 millj. kr. í að þróa aðferðir og styrkja getu Íslands til að greina og flokka fimm spendýr, þ.e. selinn, músina, refinn, minkinn og hreindýrið, og um 70 fuglategundir. Ég treysti mér ekki til þess að telja þær upp hér en það er algjörlega ljóst að það er ekki fjárskortur í Evrópusambandinu ef hægt er að setja rúmar 500 milljónir í þetta verkefni.

Hvert mannsbarn á Íslandi getur talið upp þau spendýr sem lifa í íslenskri náttúru og margir geta talið upp alla fuglana þannig að ég tel að geta Íslendinga til þess að greina og flokka dýra- og fuglategundir sé bara í býsna góðu ástandi núna. En hvað um það.

Næsta verkefni er að styrkja hagtölugerð í sambandi við reglugerðir Evrópusambandsins um þjóðhagsreikninga og er það í samstarfi við hagstofur annarra Evrópuríkja og Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Það er örugglega hið besta verkefni. Í það eiga að fara 825 þús. evrur, sem eru rúmar 100 millj. kr.

Þá er það uppbygging á rannsóknarstofum og gæðakerfi vegna matvælaeftirlits. Í hana á að setja tæpar 2 millj. evra eða sem nemur 300 millj. kr.

Síðan er það verkefni sem gengur út á þýðingar á ESB-gerðum, þjálfun túlka og stuðning við uppbyggingu á innviðum fyrir túlkanám við Háskóla Íslands, sem er eflaust hið besta mál. Þar sér maður beina tilvísun í hvernig hægt er að nota styrkinn til að auðvelda aðlögun Íslands að Evrópusambandinu.

Svo kemur mjög athyglisvert verkefni sem kallað er Katla jarðvangur, þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæðið. Ég get ómögulega séð hvernig þróunaráætlun fyrir Eyjafjallajökulssvæðið getur virkað sem aðlögun að Evrópusambandinu.

Síðan er verkefni um menntun fyrir fleiri og betri störf og þar eru víðtækar aðgerðir til að efla menntunarstig og atvinnu. Það er hið besta mál og er til þess fallið að efla fullorðinsfræðslu fyrir fólk með litla eða enga formlega menntun og auka þar með möguleika þess innan Evrópusambandsins. Í það eiga að fara tæpar 2 millj. evra.

Síðan er eitthvað sem hefur beina tilvísun við aðlögunina, það er tæknilegur stuðningur við NIPAC-skrifstofuna. NIPAC-skrifstofan er fyrirbæri í utanríkisráðuneytinu sem mér sýnist tengjast utanumhaldi um IPA styrki — þetta er eiginlega komið í hring — í það eiga að fara 1.655 þús. evrur eða um 220–230 millj. kr.

Frumvarpið kveður á um að þeir sem vinna við þetta verkefni og eru svokallaðir ESB-verktakar verði undanþegnir skattlagningu. ESB-verktakar eru einstaklingar og lögaðilar sem veita þjónustu og/eða afhenda vörur eða vinnu fyrir verk með fjárstyrk samkvæmt ESB-samningnum.

Ef við förum aðeins yfir greinar frumvarpsins setja 1. og 2. gr. fram markmið og skilgreiningar þess. 3. gr. segir að við innflutning ESB-verktaka á vörum sem fjármagnaðar eru af ESB-samningi skuli fella niður aðflutningsgjöld. 4. gr. segir að ESB-verktaki sem selur vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi skuli vera undanþeginn virðisaukaskatti. Jafnframt er sagt í 4. gr. að skráðum aðilum er selja vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi sé heimilt að telja til innskatts á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum. Það er því ekki nóg með að þeir borgi ekki virðisaukaskatt, útskatt, heldur geta þeir talið innskatt til frádráttar.

Þá er komið að 5. gr. Þar segir að einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir á Íslandi, eru ESB-verktakar og selja vörur eða þjónustu samkvæmt ESB-samningi skuli undanþegnir skattskyldu og greiði hvorki tekjuskatt né útsvar af tekjum sem samningurinn skapar.

Þá er í 6. gr. talað um að persónulegar eigur og heimilismunir sem einstaklingar, sem taka að sér verkefni sem skilgreind eru í ESB-samningum, og nánustu fjölskyldumeðlimir þeirra, aðrir en þeir sem búsettir eru á Íslandi, flytja inn til einkanota skuli undanþegnir tollum, virðisaukaskatti og öðrum aðflutningsgjöldum. Í 7. gr. er baráttumál okkar sjálfstæðismanna sem við höfum komið fram með í efnahagstillögum og í þingsályktunartillögum, þ.e. að afnema skuli stimpilgjöld. En það snýr eingöngu að þeim sem vinna fyrir þessa IPA-styrki vegna þess að í 7. gr. segir að allir samningar sem fjármagnaðir eru af ESB-samningi skuli vera undanþegnir stimplun og stimpilgjaldi. Svo mörg voru þau orð.

Jafnframt segir í athugasemdum við frumvarpið að í samningnum sem ég minntist á áðan, sem ríkisstjórn Íslands og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undirrituðu um mitt ár 2011, skuldbindi íslensk stjórnvöld sig til að leita eftir viðeigandi lagabreytingum til að hrinda ákvæðum hans í framkvæmd. Það er sem sagt það frumvarp sem hér er til umfjöllunar.

Eins og sést á þessari upptalningu er vel í lagt. Hér mætti ætla að um væri að ræða mikið og áríðandi mál, að þessir IPA-styrkir væru okkur Íslendingum lífsnauðsynlegir eða alla vega mjög æskilegir. En það sem ég taldi upp áðan getur varla flokkast sem forgangsmál fyrir Íslendinga, þ.e. að fella niður skatta og skyldur, aðflutningsgjöld, virðisaukaskatt og annað slíkt af þeim rúmlega 500 milljónum sem ég taldi upp áðan til þess að greina og flokka 70 fuglategundir og fimm spendýrategundir. Ég hefði haldið að tíma Alþingis væri betur varið í að aðstoða heimili og fyrirtæki en að létta skattskyldu af ESB-verktökum.

Það eru ótvíræðir gallar í frumvarpinu. Félag endurskoðenda bendir á að þetta geti skekkt samkeppnisstöðu á milli innlendra seljenda vöru og þjónustu og þess sem er flutt inn af ESB-verktaka vegna þess að ójöfnuður myndist milli þessara innfluttu vara og þjónustu sem nemi aðflutningsgjöldunum þannig að samkeppnisstaðan milli Íslands og útlanda skekkist.

Í greinargerð fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu er skýrt tekið fram að það hafi í för með sér einhvern kostnað en menn treysta sér ekki til þess að leggja mat á hvað það gæti þýtt í minni skatttekjum fyrir ríkissjóð. Mín skoðun er sú að það beri að meðhöndla þegnana á sambærilegan hátt. Mér finnst óeðlilegt, og ég þekki það úr rannsóknasamfélaginu, að til dæmis íbúar Suður-Evrópu sleppi algjörlega undan sköttum með því að taka að sér verkefni í öðru EES-landi þar sem undanþága er frá sköttum vegna þess að um er að ræða verkefni fjármagnað af ESB, en ég hygg að í Norður-Evrópu sé betur fylgst með þessum hlutum og að þar komi tvísköttunarsamningar meira inn.

Við getum því sagt að það myndist ójafnvægi á milli manns frá Suður-Evrópu, þar sem ekki tíðkast að telja fram slíkar tekjur, og Íslendings, sem borga þarf skatta og rækja skyldur sínar á Íslandi, ójafnvægi sem er Íslendingnum í óhag sem verður til þess að þessi merku verkefni, til dæmis að styrkja getu Íslands til þess að greina og flokka dýra- og fuglategundir, verði fengin einhverjum öðrum en Íslendingum. Það gæti því orðið mun dýrara að fá Íslending til að búa til aðferð til að greina selinn, músina, refinn, minkinn og hreindýrið og þessa 70 fugla, en að ráða til dæmis Grikkja, Spánverja eða Ítala í verkið þar sem ekki er hefð fyrir því að menn skili sköttum af slíkum launum. Ég tek dæmi um þessa flokkun vegna þess að í hana fer hæsti IPA-styrkurinn. Um leið og Ítalinn, Spánverjinn eða Grikkinn er farinn úr landi tapast sú þekking að geta greint og flokkað selinn, músina, refinn, minkinn og hreindýrið, sem er bagalegt. Það tel ég vera galla á gjöf Njarðar.

Það þýðir víst ekki að fást um það en sá samningur sem ríkisstjórnin undirritaði við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í júlí á síðasta ári leiðir það af sér að breyta þarf þessum lögum, hvort sem mönnum þykir það sanngjarnt eða ósanngjarnt. Þá er hægt að varpa því fram hvort þörf sé á að þiggja þessa styrki, þessa ölmusu getum við sagt, frá Evrópusambandinu, vegna þess að það er voða erfitt að sjá fyrir sér að þessi verkefni, sem hér á að ráðast í, skipti öllu máli fyrir aðlögun Íslands að Evrópusambandinu. Það er viss reisn yfir því að þiggja ekki mikið af styrkjum ef maður kemst hjá því og sérstaklega er það óviðeigandi fyrir okkur Íslendinga vegna þess að landsframleiðsla á mann á Íslandi, þ.e. það sem mælir ríkidæmi okkar Íslendinga, kaupmátt, er hærri en í þessum löndum. Það er erfitt að réttlæta það fyrir sér að skattleggja til dæmis Grikki eða Íra sem eiga í gríðarlegum efnahagslegum vandræðum svo við Íslendingar getum þróað tæki til þess að greina og þekkja músina, selinn, refinn, minkinn og hreindýrið.

Það væri því reisn yfir því að hafna þessum styrkjum og þá þyrftum við heldur ekki að breyta skattkerfinu ESB-verktökum í vil og við gætum gengið stolt frá þessum hugmyndum.