140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:52]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar fyrri spurninguna um gestina sem komu á fund nefndarinnar, þá var ekki mikið um mótbárur þar. Það var helst að Félag löggiltra endurskoðenda benti á að þetta gæti valdið ójafnvægi í samkeppnisstöðu íslenskra aðila sem selja vörur og þjónustu til ESB-verktaka gagnvart þeim sem eru erlendis. Annars fóru menn bara tiltölulega hlutlaust yfir þetta, þetta voru mest embættismenn úr ráðuneytunum

Hvað varðar síðari spurninguna fór ég fyrir nokkrum vikum í ferð til Bosníu-Hersegóvínu vegna starfs míns. Það ríki er að fara að sækja um Evrópusambandið, þar eru IPA-styrkir í boði og eru notaðir á mjög sérstakan hátt. Evrópusambandsmenn sögðu það algjörlega blygðunarlaust, eða „the High Representative“ eins og hann heitir í Bosníu, að styrkirnir væru notaðir til að smyrja fyrir aðildarumsókninni.

Ég verð að segja að þegar maður lítur yfir þau verkefni sem eiga að fá IPA-styrki, bera þau vott um að verið sé að smyrja fyrir góðum vilja vegna aðildarumsóknarinnar. Ég get á engan hátt skilið af hverju þarf til dæmis að eyða 500 milljónum í mjög svo gagnlegt verkefni en algjörlega óskylt aðildarferlinu, að greina og flokka fimm tegundir spendýra og 70 fuglategundir. (Forseti hringir.) Ég næ ekki því samhengi.