140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[19:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gætir nokkurs misskilnings hjá hv. þingmanni. Hann talar um hvort óeðlilegt sé að Evrópusambandið fjármagni verkefni sem felast í fuglatalningu og öðru slíku. Ég mundi skilja það betur ef verkefnið fælist í fuglatalningu, þ.e. það gæti verið eðlilegt að vilja vita hvað eru margir fuglar (Gripið fram í.) í ríki sem er að sækja um aðild, en verkefnið felst ekki í því. Verkefnið felst í að búa til aðferðir til að greina fugla- og spendýrategundir. Ég talaði einmitt um það í ræðu minni áðan að hér á Íslandi eru fimm tegundir villtra spendýra; músin, selurinn, minkurinn, refurinn og hreindýrið. Ég held að ekki þurfi að eyða rúmum 500 milljónum í að kenna Íslendingum að greina þessi dýr og þekkja þau. Ég held að hvert mannsbarn á Íslandi þekki þau. Ég skil ekki samhengið á milli þessa og Evrópusambandsumsóknar. Ég held að þetta sé þarft verkefni en ég skil ekki samhengið. Ég get ekki sagt að ég sem Íslendingur sé sérstaklega stoltur af því að þiggja slíka styrki á meðan Evrópusambandið ætlar að skattleggja Grikki um heilmiklar upphæðir og Íra. Þessar þjóðir eiga í stórkostlegum efnahagslegum vandræðum og eru mun fátækari en við Íslendingar. Ég verð að segja að ég fyllist ekki stolti yfir því að við getum tekið við styrkjum til að læra að greina fimm spendýrategundir og 70 fugla.