140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[20:20]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom að meginatriðinu, því sem málið snýst um: Eru þetta aðlögunarstyrkir, þróunarstyrkir svo Ísland geti uppfyllt skilyrði Evrópusambandsins eða ekki? Þeir eru það og allur texti er í þá veruna. Hins vegar höfum við einstaka stjórnmálamenn hér sem halda öðru fram. Þar stendur í raun hnífurinn í kúnni, hvort sem menn eru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrar eða fjármálaráðherrar.

Ég vil samt spyrja hv. þingmann varðandi þessa IPA-styrki, þá aðlögunarstyrki sem hér um ræðir, af hverju þeir eru undanþegnir skatti. Ég hef verið að lesa frumvarpið og nefndarálitið og velti fyrir mér hvernig farið er með verkefni sem er fjármagnað að hluta af þessum IPA-styrkjum og að hluta til með af fé sem kemur úr annarri átt. Hvernig förum við með endurgreiðslu á virðisaukaskatti og eftirgjöf af innflutningsgjöldum og öðru því um líku þegar um slíkt er að ræða, þegar þetta er samstarfsverkefni? Það kemur ekki skýrt fram að mínu viti en hv. þingmaður hefur sjálfsagt lesið þetta betur en ég. Þarna virðist hvert rekast á annars horn.

Varðandi útboð á efni og tækjum fyrir IPA-peninga, (Forseti hringir.) er það bundið því að (Forseti hringir.) það fari fram innan Evrópusambandsins, eða geta til dæmis Kínverjar boðið í það?