140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:09]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel þessa framgöngu sendiherra ESB hér mjög alvarlega. Ekki það að við þurfum að óttast að málflutningur hans verði til þess að lokka frekar Íslendinga til aðildar en ekki, heldur ef á samtímis að vera með diplómatastöðu, réttindi og skyldur og ábyrgð sem slíka, og mega síðan fara í áróðursferðir.

Þetta snertir líka beint það sem við erum að tala um. Maður hlýtur að spyrja sig hvort hægt sé að telja þessa samninga um einstök verkefni jafnsetta milliríkjasamningum á pólitískum vettvangi eins og um alþjóðastofnanir sé að ræða. Hér er fyrst og fremst verið að gera samninga milli ESB og einstaks ríkis, ekki eru á ferðinni alþjóðasamningar sem slíkir. Réttarstaða þessara samninga í alþjóðlegu samhengi hlýtur því að vera mjög (Forseti hringir.) — þar er mikill tvískinnungur á ferðinni, frú forseti, alvarlegur tvískinnungur.