140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans.

Hann minntist á þá gagnrýni sem ég hef sett fram nánast á hvert einasta frumvarp og þingsályktunartillögu, þ.e. ákvæði um lagasetningarframsal til ráðherra og framkvæmdarvaldsins. Það er hnykkt á því í síðustu grein frumvarpsins að ef eitthvað væri óljóst eftir lagasetningu hefur ráðherra heimild til þess að setja reglugerð. Þetta er eitt af því sem innleitt hefur verið hér í gegnum EES-réttinn, þetta reglugerðarvæðingarfargan sem ég kalla, sem er ekkert annað en kratavæðing, að færa valdið úr þessum þingsal út í ráðuneytin sem mér finnst mjög slæmt. Það er ekki bara að þetta sé lagasetningarframsal heldur er þar líka skattlagningarframsal vegna þess að þarna eiga þessir aðilar að vera undanþegnir sköttum sem innlendir aðilar þurfa að greiða.

Úr því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson situr í fjárlaganefnd vil ég minna á að nú þegar er búið að færa inn í fjárlög ársins 2012 596 milljónir af þessum IPA-styrkjum og samkvæmt fjárlögum ráðstafa þeim til baka miðað við kredithlið ríkisreiknings. Það var athyglisvert að þingmaðurinn fór yfir það hvort skilyrði ESB séu uppfyllt með ráðstöfun þessa fjár og hugleiðingar hans varðandi það. Mig langar að spyrja á móti: Hvernig getur ríkisvaldið tekið við tæplega 600 milljónum frá Evrópusambandinu í gegnum IPA-styrkina og sett þá í fjárlög ársins 2012 þegar Alþingi er fyrst núna að ræða þetta í 2. umr. og frumvarpið kom ekki inn í þingið fyrr en í janúar? Er ekki verið að framselja hér mikið vald og er ekki ríkisstjórnin komin á grátt svæði (Forseti hringir.) að taka við fé frá Evrópusambandinu, sem hv. þm. Jón Bjarnason kallar mútufé, án þess að Alþingi hafi veitt til þess heimild?