140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:44]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins með reglugerðarheimildirnar sem settar eru svo mikið í frumvörp eftir að þessi ríkisstjórn tók við. Í nágrannaríkjunum þar sem reglugerðarheimildarákvæði eru sett inn í frumvörp og þau síðan gerð að lögum eru drög að reglugerðinni sjálfri oft sett sem fylgiskjal við frumvarpið þannig að þingmenn viti svona sirka hvað þeir eru að samþykkja þegar frumvarpið er samið. Það veitir viðkomandi ráðherra aðhald. Sú kratavæðing sem á sér hér stað í lagasafninu og þetta framsal úr þessum sal er náttúrlega að verða algjörlega óþolandi.

Varðandi þær 596 milljónir sem fóru inn í fjárlögin 2012 hefur það komið fram til dæmis að Hagstofan hefur tekið við einhverju af því fé. Ég lagði fram fyrirspurn í þinginu á sínum tíma hvort Evrópusambandið væri að borga til dæmis manntal og íbúðatal sem Hagstofan var látin gera og fékk ég þá yfir mig holskeflu frá spunameisturum Samfylkingarinnar að ég sæi ESB-drauginn í hverju horni. En nú hefur það komið í ljós í ársskýrslu Hagstofunnar og því er lýst yfir að Hagstofan hefði á engan hátt getað staðið undir þessu nema að hafa fengið IPA-styrki, þá líklega af þessum 596 millj. kr. kvóta sem samþykkt var í fjárlögum. Þess vegna þykir mér það mjög undarlegt að búið sé að samþykkja þetta í fjárlögum og enginn veit raunverulega (Forseti hringir.) hvar þetta liggur og algjörlega heimildarlaust eins og ég segi, því að það getur vel verið að Alþingi felli bæði frumvarpið og þingsályktunartillöguna við það að taka við þessum styrkjum (Forseti hringir.) og þurfi þá að endurgreiða þessar 600 milljónir. (Gripið fram í: … ekki búið …) (Gripið fram í: Ha?) (Gripið fram í: Það má ekki …)