140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði og það er athyglisvert sem hv. þingmaður benti á að gert sé í öðrum ríkjum og öðrum þingum að útlínurnar af reglugerðinni liggi fyrir sem hæstv. ráðherra á hverjum tíma er ætlað að setja, þannig að hv. þingmenn sem samþykkja lögin geri sér grein fyrir hvað felst í því að gefa ráðherra svona opna heimild til reglugerðarsetningar.

Síðan er það spurningin sem hv. þingmaður kom réttilega inn á í seinni hluta andsvars síns gagnvart þeim einstöku stofnunum sem hugsanlega hafa fengið greitt líka á árinu 2011, að væntanlega hafa viðkomandi stofnanir staðið í þeirri trú að þær væru að fara rétt að öllu. Þess vegna nefndi ég það ítrekað í ræðu minni að þetta yrði að stemma af, hvort við höfum hugsanlega verið að taka við styrkjum sem við uppfyllum ekki skilyrði um frá Evrópusambandinu og með hvaða hætti það er gert. Það er vissulega rétt ábending frá hv. þingmanni að auðvitað er eðlilegra að samþykkja lögin áður en þetta er sett inn í fjárlögin.

Ég hef svo sem ekki upplýsingar um það hvort einhverjar aðrar stofnanir hafi fengið þegar útgreitt, hvort heldur sem er á árinu 2011 eða 2012 en það er eitt af því sem við hljótum að gera kröfu til að hv. efnahags- og viðskiptanefnd svari skýrt (Forseti hringir.) en við séum ekki með einhverjar ágiskanir um það.