140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kom inn á það hversu furðulegt það væri að sama hversu augljóst það væri og hversu oft menn fengju að lesa það að við værum í raun í aðlögunarferli þrættu menn endalaust fyrir það.

Á árinu 2010 var sagt frá því í frétt í Morgunblaðinu að gerð væri víðtæk krafa um aðlögun og að það hefði komið fram á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins.

Með leyfi forseta, segir í byrjun þessarar fréttar:

„Laga þarf stjórn- og dómskerfi Íslands að regluverki Evrópusambandsins áður en aðild kemur til greina og mun hraði aðildarviðræðna ráðast af því „hve vel Íslandi tekst að uppfylla kröfur vegna aðildar“.“

Það var nú sjálf ríkjaráðstefna Evrópusambandsins sem reyndi að koma þessum skilaboðum til Íslendinga, gerði það skriflega. En þrátt fyrir að þetta hafi komið fram strax 2010 og þrátt fyrir að við höfum farið yfir það margoft í þessari umræðu hér um móttöku styrkja að það sé gert til þess að geta aðlagast Evrópusambandinu, búum við enn þá við það að hv. þingmenn stjórnarliðsins sumir hverjir koma hér upp og fullyrða að það sé engin aðlögun í gangi og gefa að í skyn að við séum bara í einhvers konar könnunarleiðangri. Segir það, að mati hv. þingmanns, okkur þingmönnum ekki að við verðum að fara að setja ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar og ræða þessi Evrópusambandsmál frá grunni, fara yfir það hvers eðlis þessi umsókn er í raun og veru? Væri ekki til dæmis ágætt að mati hv. þingmanns ef hæstv. forsætisráðherra féllist nú loksins á umsókn hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að ræða þessi mál? (Forseti hringir.) Sú umsókn hefur beðið mánuðum saman, held ég.