140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög sérkennilegt og furðulegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki hafa tekið þessa sérstöku umræðu við hv. þm. Jón Bjarnason, það er náttúrlega alveg hreint með ólíkindum af hverju það er ekki gert. Þá kemur eitthvert yfirvarp um að umræðan ætti hugsanlega að vera við hæstv. utanríkisráðherra, en þetta er nú einu sinni hæstv. forsætisráðherra landsins og oddviti ríkisstjórnarinnar. Það er alveg með eindæmum að ekki skuli vera orðið við beiðni hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Blekkingaleikurinn í málinu er sá að auðvitað kemur þetta í bakið á þeim hv. þingmönnum sem segja: Ja, ég vil ekki fara í Evrópusambandið en ég vil sækja um aðild. Hvað þýðir það í raun að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Þýðir það að Evrópusambandið eigi að laga sína löggjöf að okkar löggjöf eða gefa okkur varanlegar undanþágur? Eru einhver dæmi um það? Nei, það eru ekki dæmi um það eða alla vega mjög fá.

Maður sækir ekki um aðild að Evrópusambandinu nema að hafa þá stefnu að fara þangað inn, það gefur augaleið. Við sem sátum á þingi í júlí 2009 vitum alveg hvernig það gerðist þegar þingsályktunartillagan um aðildarumsóknina var samþykkt. Þá voru hlutirnir settir í allt annan búning, allt aðra umræðu en þá sem málið gekk út á. Þetta segir sig algjörlega sjálft þó að sumir hv. þingmenn Vinstri grænna séu enn þann dag í dag að reyna að halda því fram að þetta sé ekki aðlögunarferli. Þetta er náttúrlega eins og hver annar brandari.

Ég held að þegar nær dregur kosningum í haust, ef ríkisstjórnin lifir, sem ég vona nú ekki, muni eitthvað gerast. Þá held ég að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Vinstri grænna fari að setja niður hælana og búa sér til einhverja stöðu því að umsóknarferlinu verður ekki lokið þá. Þá munu þeir stíga fram og segja: Nú er bara komið nóg, við erum búin að vera allt of lengi í þessu og við viljum samning núna, punktur, og reyna þannig að setja sig í stöðu fyrir kosningarnar. Ég spái því að atburðarásin verði eitthvað með þeim hætti þannig að menn verði ekki reknir til baka og niðurlægðir vegna afstöðu sinnar til Evrópusambandsins þegar þeir koma aftur í kosningabaráttu.