140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[21:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hans ágætu ræðu. Það sem stendur upp úr hjá flestum í þessari umræðu er aðlögun sem augljóslega í gangi, aðlögunin er vitanlega löngu hafin. Það sem er kannski nýtt í þessu öllu saman en ætti samt ekki að koma á óvart er sú krafa Evrópusambandsins að þeir sem koma frá útlöndum eða eru erlendir aðilar og munu vinna hér á þessum IPA-styrkjum fá sérmeðferð, þeir fá sérmeðhöndlun á Íslandi. Sagt hefur verið í ræðustól að það sé eðlilegt því að um erlent ríki sé að ræða. Það sama eigi að gilda um Evrópusambandið og einhver ríki sem eru með sendiráð á Íslandi.

Er það almennt þannig að litið sé á Evrópusambandið sem eitt ríki? Ég velti því fyrir mér hvort Evrópusambandið sé með sendiráð í öllum þeim löndum sem til dæmis Þjóðverjar og Frakkar eru með sendiráð. Er sérstakt sendiráð rekið alls staðar á vegum Evrópusambandsins og flokka til dæmis Indverjar Evrópusambandið sem ríki á Indlandi? Mér finnst mjög hæpið að skilgreina eitthvert bandalag nokkurra ríkja, að það eigi að fá sérmeðhöndlun hér á landi.

Hvað gerist ef við förum í einhverjar samningaviðræður eða viðræður við ríkjabandalag Ameríkuríkja til dæmis eða NAFTA-bandalagið eða eitthvað svoleiðis, eigum við þá að veita þessum aðilum hliðstæðar hliðranir og hér er gert? Félag löggiltra endurskoðenda bendir réttilega á að verið sé að búa til mismunun milli erlendra og íslenskra aðila. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sjái einhver rök fyrir því, í öllum þessum texta (Forseti hringir.) sem hér er búið að demba yfir okkur, að beita slíkri mismunun.