140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:01]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér sérstaka umgjörð og eftirgjöf á íslenskum lögum varðandi svokallaða IPA-styrki, styrki sem Evrópusambandið veitir ríkjum sem sótt hafa um aðild að því. Fjármagnið er af þess hálfu ætlað til að aðstoða viðkomandi umsóknarland við að uppfylla þau skilyrði og þær innri kröfur sem Evrópusambandið gerir þannig að ríki geti frá fyrsta degi aðildar verið fullgildur aðili.

Þessir styrkir komu til eftir að Austur-Evrópuríki fóru að sækja um aðild. Þá kom í ljós að styrkja þurfti og þróa með beinum hætti innviði þessara ríkja til að uppfylla þau skilyrði sem Evrópusambandið setti. Þess vegna var meðal annars umrædd reglugerð um þróunarstyrki innleidd. Ísland er þá í sömu stöðu og önnur ríki sem hafa sótt um aðild, að Evrópusambandið fylgist með því hvað þarf til og býður fram fjármagn til aðlögunar á umsóknartímanum.

Áður en ég kem ítarlegar að þessu, frú forseti, vil ég reifa aðeins umgjörð umsóknar Íslands sem illu heilli var send sumarið 2009 og er því um það bil að verða þriggja ára. Það fer ekkert á milli mála að umsókn Íslands að Evrópusambandinu klýfur þjóðina í tvennt. Hvarvetna eru menn vissulega tvístígandi í umræðunni, vita í raun ekki hvert framhaldið verður. Sumir segja að umsóknin sé dauð. Aðrir segja að hún sé nánast í pattstöðu.

En hvert sem framhaldið er verður áfram keyrt. Þetta frumvarp hér, um skattfrelsi tengt IPA-styrkjunum, er liður í því að keyra málið áfram. Við verðum að athuga að þarna er verið að ganga frá samningum af hálfu Íslands til næstu ára, til að minnsta kosti þriggja ára, ef ekki fjögurra. Þetta eru þá samningar sem ganga síðan áfram frá íslenska ríkinu til stofnana og verkefna sem eru farin að treysta á þetta fjármagn til að byggja upp innviði sína og svara kröfum Evrópusambandsins.

Það er því alveg ljóst að harkan í þessari umræðu eykst. Eftir því sem við ánetjumst meir eða þvælumst lengra inn í þetta aðlögunarferli, ég tala nú ekki um með fjármagni, eykst harkan. Það gefur augaleið. Það verða harðari flokkadrættir eins og við upplifum einmitt í umræðunni núna. Þingmenn sem hafa lýst því yfir að þeir séu andvígir umsókninni og aðlögunarferlinu eru samt farnir að styðja það að við tökum á móti fjármagni til að fjármagna aðlögunina. Það sýnir best hvernig komið er fyrir okkur. Harkan eykst þegar stjórnsýslan ánetjast eða verður háð fjárframlögum Evrópusambandsins í aðlögunarferlinu.

Við höfum séð það rækilega á Alþingi að þessi umsókn hefur komið lagasetningu og vinnu stjórnsýslunnar í uppnám. Margir sem voru hlynntir því að sækja um aðild, héldu að um samningaviðræður væri að ræða, héldu í sakleysi sínu að hér gengju tveir fullbærir aðilar til samninga á sjálfstæðum forsendum, upplifa núna að svo er alls ekki. Sumir halda reyndar í þá óskhyggju sína og tala um samninga, en lagagerð og reglusmíð íslenskrar stjórnsýslu tekur nú þegar mið af því sem okkur verður gert að uppfylla við inngöngu í Evrópusambandið. Skemmst er að minnast þess þegar á dögunum var samþykkt að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og sameina það iðnaðarráðuneytinu að hluta. Það var látið berast til Brussel að sú aðgerð væri komin til framkvæmda og yrði grunnur að því að svara þeim aðlögunarkröfum sem gerðar voru af hálfu Evrópusambandsins um landbúnað og byggðamál.

Það er mikill misskilningur að hægt sé að leika sér að milliríkjasamningum eða kíkja í pakkann. Ríki sem sækir um aðild að Evrópusambandinu fer inn í aðlögunarferli þar sem umsóknarríkið tekur jafnt og þétt upp lög og reglugerðir Evrópusambandsins. Ráðamenn í Brussel gera ráð fyrir að umsóknarríkið hafi gert upp hug sinn og vilji inn í félagsskapinn, annars væri ekki verið að sækja um. Evrópusambandið býður ekki upp á neinar óskuldbindandi viðræður.

Á vefsíðu Evrópusambandsins segir orðrétt um stækkun þess, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi er mikilvægt að undirstrika það að hugtakið samningaviðræður getur verið misvísandi. Aðildarviðræður snúast um skilyrði fyrir og tímasetningar á upptöku umsóknarlands á reglum ESB, framkvæmd þeirra og beitingu … Um þessar reglur … verður ekki samið.“

Þetta er það sem stendur af hálfu ESB og það hefur aldrei dregið dul á að því er fylgt af þess hálfu.

Við 1. umr. um IPA-styrkina, minnir mig, hafði hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson áhyggjur af því að íslenska stjórnsýslan og stofnanakerfið ánetjaðist ESB í gegnum þessa peninga. Þau ummæli vöktu mjög hörð viðbrögð, eins og við munum. Forustumenn heilu stéttarfélaganna og fleiri mótmæltu þessu eða létu í ljósi óánægju sína með ummæli hæstv. ráðherra. Það sýnir að það er komið við kvikuna, að sjálfsögðu. Hver er líka tilgangurinn með þessum fjármunum ef þeir eru ekki ætlaðir til að ráða fólk og fara í verkefni? Fyrir hverja fjársvelta stofnun sem langar til að takast á við fleiri verkefni og fá meira fjármagn er erfitt að ætla að standa gegn því að fá fé þó að það sé svona til komið.

Ekki er hægt að álasa embættismönnum í þessu efni, alls ekki, en stjórnmálamennirnir sem beita svona fjáröflun bera ábyrgð á því að íslenskt samfélag ánetjast. Það á að vísa ábyrgðinni á þá. Þeir sem fá þessa styrki njóta líka verulegra skattfríðinda umfram þá sem afla sér fjár og verkefna á annan hátt. Og athugum það að ekki fá allir þessa styrki. Að sjálfsögðu er hér markvisst verið að undirbúa jarðveginn fyrir aðild, enda er tilgangur styrkjanna sá. (Gripið fram í.)

Það er líka rétt að minnast þess að aðildarviðræður við ESB felast í því að bera saman lög og regluverk á Íslandi og í Evrópusambandinu og skoða hverju Ísland þarf að breyta í sínu kerfi og stjórnsýslu til að falla að regluverki Evrópusambandsins. Fyrir hvern kafla er birt svokölluð rýniskýrsla. Að lokinni rýnivinnu metur ESB hvernig Ísland er í stakk búið til að gangast undir regluverk og innra skipulag ESB á einstökum sviðum og það er skilyrði af hálfu Evrópusambandsins að Ísland hafi lagað sig að öllu regluverki og kröfum þess áður en hægt er að loka samningum. Ísland þarf að geta sýnt fram á að það getur starfað sem fullgildur aðili frá fyrsta degi aðildar. Þess vegna erum við í aðlögunarferli að ESB en ekki samningaviðræðum. Vissulega tekur aðildin ekki gildi fyrr en Ísland og ríki Evrópusambandsins hafa samþykkt aðildarsamninginn, en áður en að þeim lokadegi kemur þarf Ísland hins vegar að hafa lagað sig að Evrópusambandinu með fullnægjandi hætti að mati Evrópusambandsins sjálfs.

Þegar framkvæmdastjórnin hefur lokið við að rýna hvern kafla er farið yfir það hvað Ísland þarf að gera í hverjum kafla fyrir sig, í hverju verkefni fyrir sig, til að uppfylla þau skilyrði sem Evrópusambandið setur. Fé er einmitt boðið af Evrópusambandinu, þessir styrkir, til að uppfylla þau skilyrði til að hægt sé að innleiða þessar reglur, eins og segir í þessu ágæta yfirliti um IPA-styrkina.

Hvað er innleiðing reglna og gerða annað en aðlögun?

Að styrkja stjórnsýsluna samkvæmt kröfum Evrópusambandsins er hlutverk þessara styrkja, stofnanauppbygging (VigH: Hneyksli.) sem fellur að stofnanauppbyggingu og kröfum Evrópusambandsins, undirbúningur fyrir sjóði í landbúnaði og sjávarútvegi, atvinnu- og byggðamálum. Þetta er gott og blessað fyrir þau ríki sem ætla sér að fara inn eins hratt og þau mögulega geta. Og það má forsætisráðherra eiga, þrátt fyrir að hún hafi ekki þorað að taka umræðuna sem ég hef óskað eftir um stöðu viðræðnanna, að hún hefur sagt að það sé mjög mikilvægt að Ísland fari eins hratt í Evrópusambandið og nokkur kostur er og geti tekið upp evru. Hún hefur þá verið heiðarleg og sagt það. Það er aftur á móti ekki stefna ríkisstjórnarinnar í heild heldur á bara að kíkja í pakkann og sjá til en síðan tökum við við þessum styrkjum.

Kröfur Evrópusambandsins liggja fyrir í öllum meginatriðum og þess vegna er í sjálfu sér komið að því að afgreiða og samþykkja þessar styrkbeiðnir. IPA-styrkirnir fela í sér ákveðna þætti, þ.e. að veita fjármagn til skilgreindra verkefna. Maður getur þá velt fyrir sér í sambandi við þetta frumvarp hvernig staðan er þar. Þar kemur fram að það er „kommissjónin“ sjálf sem velur verkefnin sem mega fá styrk, það er hún sem metur út frá rýniskýrslunum hvar þörfin er mest. Hennar mat ræður. Það kemur fram að þessir styrkir skuli vera skattfrjálsir en hins vegar kemur ekki fram hvernig því er þá varið þegar um er að ræða sameiginlegar styrkveitingar, þegar hluti af fjármagninu til viðkomandi verkefnis kemur frá Evrópusambandinu gegnum þessa IPA-styrki og hluti frá Íslandi. Það kemur ekki fram hvernig þá er tekið á málum. Vafalaust verður það að gerast í reglugerð. Mismunun er í því hverjir eru hér að vinna. Erlendir aðilar sem hér vinna á IPA-styrkjum fá allt aðra meðhöndlun en erlendir aðilar sem vinna á einhverjum öðrum forsendum. Það er dregið mjög í efa að þetta sá í raun löglegt.

Ein af forsendunum í þessum styrkjum og þeim skattfríðindum sem hér er verið að veita er að verið sé að gera samninga við einhvers konar alþjóðastofnanir og að á þeim forsendum megi þetta lúta sérstökum reglum. En Evrópusambandið er engin alþjóðastofnun, þetta er bara efnahagslegt og pólitískt ríkjasamband. Þess vegna er það að mínu viti fullkomin lögleysa og rangnefni að tala um að þarna sé um alþjóðastofnun að ræða. Þar fyrir utan eru þeir samningar sem eru gerðir, t.d. samningarnir um þessa styrki, samningar á milli Evrópusambandsins og einstaks ríkis og á þeim forsendum er ekki einu sinni hægt að segja að um sé að ræða samninga á alþjóðlegum grundvelli.

Það er miklu hreinlegra að viðurkenna strax í umræðunni að þetta eru aðlögunarstyrkir sem veittir eru Íslendingum til að láta þá ánetjast, hjálpa þeim að uppfylla þau skilyrði sem Evrópusambandið setur. Við eigum að taka umræðuna á þeim grundvelli. Við teljum okkur vera þróað og sterkt ríki, fjárhagslega, pólitískt, samfélagslega, þó að stöðugt megi betur gera í ákveðnum efnum. Viljum við taka við fjármagni frá Evrópusambandinu sem beinlínis er ætlað til að koma okkur inn í Evrópusambandið? (Gripið fram í.)

Þegar þingsályktunartillagan um að sækja um aðild að Evrópusambandinu var samþykkt á sínum tíma héldu margir að þá væri um jafngilda aðila að ræða, þetta væru þjóðir sem væru að semja. Eins og ég sagði áðan er þetta ekki þannig, enda umsóknin send á sínum tíma á forsendum Evrópusambandsins. Það kom skýrt fram í umræðunni, hjá þeim sem vildu viðurkenna sannleikann í þeim efnum, að Evrópusambandið tekur ekki við skilyrtri umsókn. Það tekur ekki við slíkri umsókn heldur býst við að viðkomandi ríki sé reiðubúið að fara inn í það ferli sem Evrópusambandið hefur ákveðið. Eins og aðalsamningamaðurinn sagði í viðtali við Morgunblaðið, að ég held, fyrir nokkru: Hér er það Evrópusambandið sem ræður för.

Það er Evrópusambandið sem ræður för, það er alveg hárrétt, og þessir aðlögunarstyrkir eru hluti af þeim aðferðum sem sambandið beitir til að láta Ísland ánetjast í þessu ferli öllu.

Það skal sagt hér að ég sem ráðherra lagðist gegn því að við tækjum á móti þessum aðlögunarstyrkjum. Ég taldi það ekki heimilt samkvæmt þingsályktunartillögunni sem var samþykkt þegar aðildarumsóknin var send. Enda kemur á daginn að hún heimilaði það ekki og þess vegna er þetta mál komið hingað inn. Ef þetta hefði staðið í þingsályktunartillögunni með aðildarumsókninni á sínum tíma þyrftum við ekki að flytja sérstaka þingsályktunartillögu um málið heldur er þetta komið til eftir á. Það er eins gott að menn geri sér grein fyrir því að þetta er til komið eftir á.

Ég taldi og tel enn að í greinargerðinni og þingsályktunartillögunni sem samþykkt var um miðjan júlí árið 2009 hafi alls ekki verið gert ráð fyrir því að þessir styrkir yrðu þegnir. Því skyldum við þá núna ætla að breyta um stefnu í þeim efnum og samþykkja að taka á móti styrkjum til að íslenskt samfélag geti aðlagast Evrópusambandinu? Hefur hugarfar þingmanna (Forseti hringir.) þá ánetjast svo á þessum þremur árum að nú sé þorandi að fara með (Forseti hringir.) slíkt mál inn í þingið? Ég er algjörlega á móti þessu máli, frú forseti, og teldi sóma að því fyrir Íslendinga að hafna því að taka við aðlögunarfé eða mútufé eins og hér er á ferðinni.