140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:23]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt, ég lagðist alfarið gegn því að sótt yrði um þessa aðlögunarstyrki og þeim stofnunum sem heyrðu undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið var gert ljóst að það yrði ekki gert. Þegar kom upp eitt tilvik þar sem var búið að setja inn í fjárlagatillögur ráðuneytisins án vitundar ráðherra tillögur um IPA-styrki til einnar stofnunar var því hafnað. Afstaða mín var því alltaf ljós hvað þetta varðaði, ég taldi að ég hefði ekki einu sinni heimild til þess að sækja um slíka IPA-styrki samkvæmt þingsályktunartillögunni sem samþykkt var. Og nú kemur á daginn að flytja verður sérstakt þingmál til þess að hægt sé að gera þennan gjörning löglegan eftir á.