140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó svo að hv. þingmaður hafi staðið sig býsna vel í þessari baráttu ætla ég ekki að hæla honum meira fyrir það því að það styttist vonandi í að við þurfum að kljást um hylli kjósenda í kjördæmunum. (Gripið fram í.) Þetta er athyglisvert allt saman, það kann þó að vera að hv. þingmaður verði eini þingmaður Vinstri grænna miðað við hvernig staðið er við kosningaloforðin, við sjáum til.

Hv. þingmaður og fyrrverandi ráðherra hefur klárlega verið innanbúðarmaður í öllu þessu ferli og hefur staðið í lappirnar í málinu. Við hljótum því að leggja við hlustir þegar hv. þingmaður segir að forsendur fyrir þessu ferli öllu séu í rauninni brostnar, breyttar, því að við séum komin út fyrir það (Forseti hringir.) umboð sem þingsályktunartillagan veitti okkur.