140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:36]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Staðan er sú að rýnivinnunni er lokið í flestum málum í þessum köflum. Fyrir liggur mat eða samanburður á lögum og reglum Íslands annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar, nema í ákveðnum köflum eins og í sjávarútvegi þar sem ekki er komin niðurstaða. Þá koma jafnframt fram kröfur Evrópusambandsins um þær breytingar sem Ísland þarf að gera á regluverki sínu eða stofnanaumhverfi. Þessir IPA-peningar eru meðal annars hugsaðir til að fara í þær breytingar þannig að segja má að aðlögunarferlið fari á fulla ferð með því að við tökum á móti þessum milljörðum króna með samþykki Alþingis. Þess vegna er ákvörðunin um að taka við þessu fjármagni, þessu aðlögunarfé, svo afdrifarík (Forseti hringir.) og þess vegna er svo mikilvægt að þingmenn átti sig á því og viðurkenni þá stöðu sem uppi er. (Forseti hringir.) Við erum að fara í aðlögunarferli með samþykkt á þessum IPA-styrkjum og það eins hratt og nokkur kostur er. (Forseti hringir.) Því er ég ekki sammála, frú forseti.