140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[22:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég efast ekki um að þeir eru fleiri en hv. þm. Jón Bjarnason innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa um þetta miklar efasemdir. Ég er til að mynda ekki viss um að það hafi verið meiri hluti fyrir því í utanríkismálanefnd að taka þetta mál úr þeirri nefnd, að meiri hlutinn hafi talið að það væri fullbúið. Þar kom upp mjög sérkennileg staða þegar málið var afgreitt úr nefndinni að ég held þremur mínútum eftir að fundurinn var settur og áður en nefndarmenn voru þar allir mættir þannig að hinn raunverulegi meiri hluti kom aldrei í ljós.

Hver telur hv. þingmaður að sé meiri hlutinn á Alþingi? Er meiri hluti fyrir þessum tillögum? Verður þetta mál knúið hér í gegn jafnvel í andstöðu við meiri hluta þingmanna rétt eins og umsóknin á sínum tíma? Telur hv. þingmaður með öðrum orðum að (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra og aðrir ráðherrar séu tilbúnir (Forseti hringir.) að beita sams konar brögðum og þá var gert?