140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[23:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er annað sem efnahags- og skattanefnd þarf svo sannarlega að fara yfir, reyndar bara eitt af mörgu er varðar þetta mál.

Eitt af því sem er mjög óheppilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, við þetta mál er að í fjárlögum er gert ráð fyrir því að menn fái þetta fjármagn allt saman án þess að heimildin hafi verið veitt af þinginu. Hvað eftir annað sjáum við dæmi þess að ráðherrar í þessari ríkisstjórn geri ráð fyrir því með áherslum sínum og frumvörpum að þingið samþykki hlutina og hafi þá eins og ráðherrarnir ætlast til. Þingið er sett í mjög erfiða stöðu hvað eftir annað þegar það þarf að ræða mál eftir að þau eru komin af stað. Þetta er eitt af því sem ég vona að efnahags- og skattanefnd fari yfir og helst setji ofan í við (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra fyrir að hlaupa svona fram úr sér og fram úr þinginu.