140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

frávik vegna styrkja úr sjóði er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki Evrópusambandsins.

376. mál
[23:18]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel í alvöru grundvallaratriði að það sé ljóst við hvern hér er verið að semja. Er verið að semja við ríkjasamband eða stofnun? Það kemur ekki ljóst fram af því sem þarna er.

Mér dettur nú í hug sagan af ágætum félaga mínum og fyrrverandi þingmanni Framsóknarflokksins, Bjarna Harðarsyni, sem var á fundi með fleiri Íslendingum og Norðmönnum og fulltrúum Evrópusambandsins. Þeir sátu í kringum borð og eðlilega byrjar Bjarni Harðarson að spyrja hvaðan þeir séu og gekk fyrst á fyrsta Íslendinginn. Hann vissi alveg að hann var frá Ísafirði. Og næsta og hann vissi að hann var frá Höfn í Hornafirði og Norðmaðurinn vissi alveg að hann kom frá Lófóten. Svo sneri hann sér að Evrópusambandsmanninum og spurði: Hver ert þú, gói minn, og hvaðan ert þú? og Evrópusambandsmaðurinn vissi það ekki. Þá sagði Bjarni: Maður tekur ekki upp viðræður við mann (Forseti hringir.) sem veit ekki hvaðan hann er eða hver hann er.