140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:32]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er óþarfi að vera að hártoga um orðnotkunina á sjómannaafslætti, dagpeningum eða skattfríðindum. Við erum að tala um sama málið.

Hugtakið sjómannaafsláttur hefur verið notað á Íslandi í nærri hálfa öld en þær tillögur sem liggja fyrir um breytingar á fyrirkomulaginu miða ekki við sjómannaafslátt, svo það sé skýrt tekið fram. Þær miða við skattfríðindi sem eru á nótum dagpeninga og nýjustu framsetningu á slíku. Þetta er spurning um að stjórnvöld viðurkenni þennan þátt í starfi sjómanna sem skattfríðindi vegna fjarveru frá heimili, vinnu á vinnustað fjarri heimili. Ef einhver staður á jörðinni er fjarri heimili þá er það hafið. Þess vegna ætti þetta ekki að vera nein spurning og stjórnvöld eiga að afgreiða þetta, frumvarpið hefur verið lagt fram og málið er klárt þegar það verður afgreitt og auðvitað kemur að því að það verður gert.