140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:54]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Áður en ég beini spurningum til hv. þingmanns vil ég taka undir vangaveltur hans um jöfnun atkvæðavægis. Það væri fróðlegt ef þeir sem tala fyrir því ákvæði mundu samhliða tjá hug sinn um Evrópusambandsmál, hvort þeir sömu tali um að berjast fyrir slíku ákvæði innan Evrópusambandsins. Þá reiknast mér til að Ísland næði líklega ekki hálfri röddu á Evrópuþinginu.

Ég og hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni höfum lagt til nokkrar breytingartillögur við þetta mál sem fela í sér að spyrja ýmissa spurninga sem snúa að landsbyggðinni eins og til dæmis:

Vilt þú að í stjórnarskrá verði kveðið á um jafnrétti til búsetu? Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði sem kveður á um jafna dreifingu útgjalda ríkisins milli landshluta? Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði sem kveður á um rétt allra landsmanna til jafnra samgangna? Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði sem kveður á um jöfnun raforku- og hitaveitukostnaðar heimila?

Og svona mætti áfram telja. Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji ekki ástæðu til þess almennt, kannski ekki gagnvart þessum breytingartillögum, að skoða í stjórnarskrá og jafnvel samhliða þessu máli að styrkja á einhvern hátt stöðu hinna dreifðu byggða, jafna búsetuskilyrði hvort sem þau snúa að raforku, samgöngum, aðgangi að heilbrigðisþjónustu eða þjónustu á vegum hins opinbera. Er ekki ástæða til að tryggja rétt allra óháð búsetu í stjórnarskrá Íslands?