140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:59]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Af því að tíminn er naumur, virðulegi forseti, ætla ég að segja að tónninn sem gefinn er í þessum drögum er þannig að þar eru tiltekin alls konar réttindi sem ekki er hægt að standa við. Ég er á móti því að þau séu í stjórnarskrá. Ég tel afar brýnt að grunnlögin séu skýr og það sé algerlega skýrt hvaða réttindi stjórnarskráin tryggir. Eins og drögin eru núna er þetta listi af alls konar hlutum sem líta ágætlega út á blaði en það er ekki hægt að framfylgja þeim. Grunnlögin verða að vera þannig að það sé hægt að framfylgja þeim.

Eitt er til dæmis réttur til lífs. (Forseti hringir.) Ef ég er veikur og það mundi kosta óendanlega mikið að lækna mig en það væri hægt, (Forseti hringir.) get ég þá ekki farið í mál við ríkið ef ríkið stendur ekki við það?